Kalt stríð besta evrópska kvikmyndin

Cold War, eða Kalt stríð, eftir pólska leikstjórann Paweł Pawlikowski, sem sýnd hefur verið síðustu daga og vikur í Bíó paradís, var sigursælasta kvikmyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem fram fóru í gær, laugardag. Myndin vann fimm af aðalverðlaunum hátíðarinnar.

Cold War er ástarsaga sem gerist í Evrópu eftir Seinni heimsstyrjöldina, og er tekin í svart-hvítu. Myndin tók heim verðlaunin fyrir bestu kvikmynd, besta leikstjóra, besta handrit, bestu klippingu og bestu leikkonu, Joanna Kulig.

„Myndin er um örlög Evrópu, mjög evrópsk stemmning og saga sem getur bugað fólk en stundum kallar fram það besta í fólki – þetta er mjög evrópsk kvikmynd geri ég ráð fyrir,“ sagði Pawlikowski, á vefsíðunni EuroNews.


Verðlaun fyrir besta leikara fóru til ítalska leikstjórans Marcello Fonte, sem leikur hundasnyrti í mynd Matteo Garrone, Dogman.

Fonte var einnig valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á árinu.

„Þetta var þriggja mánaða undirbúningur,“ sagði hann við Euronews. „Ég vann í þrjá mánuði á hundasnyrtistofu, og þvoði hundum frá 9 á morgnana til kl. 19 á kvöldin, til að skilja til fulls álagið við að vera hundasnyrtir.“

Þetta var í 31 .skipti sem hátíðin var haldin, en hún fór fram í Sevilla á Spáni.

Hér má lesa ítarlega frásögn blaðamanns Morgunblaðsins sem sótti hátíðina.