40 ár milli stríða

Í tilefni af 40 ára afmæli „Halloween“ (1978) hefur ný „Halloween“ (2018) nú verið frumsýnd og er henni lýst sem hinni einu sönnu framhaldsmynd af þeim sem að baki henni standa. Að vissu leyti er það rétt staðhæfing en skrautleg saga myndabálksins hefur gert það að verkum að ný framhaldsmynd verður einfaldlega að sniðganga einhverjar myndir sem áður hafa komið. Það er einfaldlega leyst hér með því að sniðganga allar aðrar framhaldsmyndir seríunnar.

Fjörutíu ár hafa liðið frá því að Michael Myers (Nick Castle) flúði frá Smith‘s Grove hælinu og myrti í kjölfarið fimm manns á Hrekkjavökunótt í smábænum Haddonfield. Hann hélt út í myrkrið eftir að hafa verið skotinn sex sinnum en náðist skömmu síðar og var settur aftur í varðhald. Blaðamenn sem sjá um hlaðvarpsþætti sem snúa að alvöru glæpum fá að berja Michael augum og vonast til þess að framkalla einhver viðbrögð frá honum þegar gríman alræmda sem hann notaði forðum daga er sýnd honum. Það gerist þó ekki og Michael heldur áfram að vera þögull sem gröfin en hann hefur ekki látið út úr sér orð frá barnsaldri.

Næst halda blaðamennirnir til Laurie Strode (Jamie Lee Curtis) sem lifði af árásir Michael fyrir öllum þessum árum síðan. Í ljós kemur að Laurie hefur alla tíð síðan lifað í stöðugum ótta við að Michael sleppi úr prísund sinni og það hefur kostað mikla erfiðleika í samskiptum hennar við dóttur sína Karen (Judy Greer) og barnabarnið Allyson (Andi Matichak). Laurie býr í víggirtu húsi og vonast innst inni til þess að mæta Michael einn daginn til að gera upp sakirnar.

Örlögin sjá svo til þess að stuttu fyrir Hrekkjavöku stendur til að flytja Michael frá hælinu og til annarrar stofnunar og þá nær hann að flýja. Förinni er heitið til Haddonfield og Lauire fær tækifæri til að mæta kvalara sínum.

Það er ekkert að þessari nýju „Halloween“ sem slíkri. Hún fellur í betri hópinn af framhaldsmyndunum og er talsvert betri en tvíeyki Rob Zombie‘s („Halloween“ (2007“) og „Halloween II“ (2009)), „Halloween: Resurrection“ (2002), „Halloween 5“ (1989) og „Halloween: The Curse of Michael Myers“ (1995) en þó lakari en upprunanlega „Halloween II“ (1981), „Halloween 4“ (1988) og „Halloween: H20“ (1998). Fyrir meðaláhugamanninn er þetta vafalaust frekar ruglingslegt en hingað til hafa öll framhöldin (að undanskildri „Halloween III: Season of the Witch“, 1982) gengið út frá því að Michael og Laurie væru systkini en það á ekki við hér. Þetta er einfaldlega þriðja tímalínan í seríunni.

Michael Myers er gerður frekar táknrænn fyrir #metoo byltinguna þar sem miklum tíma er eytt í að sýna áhrifin sem Laurie varð fyrir. Hryllingurinn sem hún upplifði þegar Michael réðst að henni hefur haldið henni í stöðugum ótta alla tíð síðan og ljóst er að hún nær engum bata fyrr en hún getur svarað fyrir sig með einhverjum hætti. Öll persónuleg samskipti við fjölskylduna hafa liðið fyrir þennan verknað og óvissan um hvort Michael snúi einhvern tímann aftur heldur Lauire stöðugt á varðbergi. Þessi dramatíska þungamiðja myndi væntanlega vera frekar tormelt ef ekki væri fyrir frábæra frammistöðu Jamie Lee Curtis og óhjákvæmilegt uppgjör verður öllu kröftugra fyrir vikið þó það sé helst til of snubbótt.

„Halloween“ ber þess pínulítið merki að hafa verið ódýr í framleiðslu og framvindan er frekar hröð og hroðvirknisleg á köflum en á mjög skömmum tíma er Michael sloppinn út og farinn að murka lífið úr hinum og þessum. Kaflinn þegar hann fer á stjá í gamla heimabænum framkallar þó nokkur ansi góð atriði sem veita aðdáendum seríunnar mikla ánægju með mýmörgum hnyttnum tilvitnunum í frummyndina og nokkur framhöldin sem að öllu öðru leyti eru sniðgengin. Þessi kafli kynnir einnig til sögunnar nokkur ungmenni sem eru að fást við drama í ástarlífinu, tilvistarkreppu og gamaldags greddu í bland við smá hass. Þetta er ágætlega í takt við frummyndina og lítið yfir því að kvarta. Svo er vert að minnast á að meistari John Carpenter (leikstjóri upprunanlegu „Halloween“) sér um tónlistina ásamt syni sínum Cody Carpenter og Daniel A. Davies og gömlu klassísku stefin eru meistaralega uppfærð ásamt nýrri tónlist og skapa frábæra stemningu.

Handritadeildin hefði þó mátt fá smá meiri gæðastjórnun þegar kemur að einum kafla af viðbótarplotti sem aðeins er drepið á eingöngu til þess að koma með óvænt atriði. En ekkert meira verður úr því og eftir stendur asnalegur útúrdúr sem vafalaust var hugsaður sem eitthvað meira.

En heilt yfir er „Halloween“ hin fínasta viðbót við myndabálkinn. Upprunanlegi söguþráðurinn um Michael Myers endaði á hrikalega lágu plani með „Halloween: Resurrection“ og þungarokkstöffarinn Zombie náði ekki að glæða seríuna nýju lífi með sinni „hálfgerðu“ endurgerð og framhaldi við því. Myers er í takt við tímann með hlaðvarpskynnum og sterkri vísun í #metoo og góðar líkur á að þessi mannfjandi snúi aftur til að hrella Laurie og fleiri ef dollararnir fljúga inn.