Heillandi tónaflóð og tómarúm

Stuttmyndin Island Living, í leikstjórn Viktors nokkurs Sigurjónssonar, tekur öðruvísi snúning á það sem best er lýst sem „eymdarklisju íslenskra verka“, þar sem afskekkt þorp speglar tómarúm í sál persóna.

Segir hér frá hinum 12 ára gamla Braga, sem býr einn með móður sinni á Seyðisfirði og virðist lítið tengjast staðnum eða finna sig. Dag nokkurn ákveður hann að smíða sitt eigið trommusett og eignast skömmu síðar nýjan vin, Frey, og breytist þá tónninn töluvert í hinu hversdagslega tómarúmi. Saman eru þeir Bragi og Freyr samstíga í gegnum tónlistaráhugann og sköpun.

Á tæpum hálftíma fangar Viktor og hans teymi þéttan, léttan en jafnframt melankólískan tilfinningarússíbana. Í framvindunni stefna drengirnir á að sigra hæfileikakeppni þorpsins. Þetta leiðir að stórskemmtilegri senu en kjarnaþráður myndarinnar fylgir því ekki eftir hvort félagarnir vinna keppnina eða ekki. 

Eftir meintan „climax-punkt“ sögunnar læðist inn kaldari, raunsærri og tragískari bragur. Þetta myndar sterka andstæðu við það sem á undan hafði komið en brýtur aldrei tóninn í andrúmsloftinu. Lokasenurnar bera með sér kunnuglegan keim en eru ekkert síður áhrifaríkar.  

Handritið, sem er eftir Viktor, Apríl Helgudóttur og Atla Óskar Fjalarsson, hreyfir við áhorfandanum, heillar og skemmtir. Öll hljóðvinna og mix tónlistar er glæsileg, þar sem tónlistin og (önnur hversdagshljóð jafnvel) fá að poppa. Ýmis konar lítið skraut í kvikmyndatöku og klippitöktum kryddar frásögnina, og veldur því að hvergi fer rammi til spillis í persónusögunni og skilaboðum hennar. Ef leita ætti að samanurði kemur upp í hugann samblanda af Hjartasteini og Sing Street… í fínni skammtastærð.

Þeir Guðjón Andri Gunnarsson og Viktor Máni Edwardsson (sem báðir léku í kvikmyndinni Bergmál) fara með hlutverk Braga og Freys, og eru ágætis dæmi um leikara á þessum aldri sem hvorki ofleika né taka á taugarnar. Fyrir utan eina og eina bjagaða línu sem hefði kannski kallað á aðra töku, eru strákarnir tveir afar viðkunnanlegir, sannfærandi og sterkir saman. Birgitta Birgisdóttir leikur móður Braga, sem er allt annað en ánægð með nýfundna áhugann á trommusettinu. Í hennar huga er þetta eintómur hávaði og vonandi bara fasi hjá drengnum. 

Móðirin í túlkun Birgittu er jarðbundin og aðlaðandi á sinn hátt en handritið rammar vel inn – oftast án orða – þann harmleik sem kemur með glæru tengslaleysi foreldra við barn, nánar tiltekið þegar foreldrið er alveg blint á hæfileika eða ástríðu barnsins. Eða verra, þegar foreldrið hefur sama og engan áhuga á slíku.

Ljóst er allavega að Island Living leynir helling á sér. Þetta er hugljúf, skemmtileg og falleg saga um vinabönd, tengsl í gegnum listsköpun – og hvað úr getur orðið ef hvort tveggja er ekki eflt. Hér er að minnsta kosti slegið á réttu nóturnar.

Í styttra máli: Það má gera ýmist verra við einn hálftíma en að leggjast í svona dúndurflott tóna- og tilfinningaflóð.