Ólukkutröll og kennsla í skítamixi

Trolls World Tour er það sem þú færð þegar þú ert búinn að gefa krakkafjörkálfi óeðlilegan skammt af sykri og afhenda honum yfirráð yfir lagalista. Á sama tíma býður barnið upp á kennslu um flokka og undirflokka tónlistar og reynir að setja það saman í frásögn sem fullorðinn einstaklingur þarf að hnoða saman í skiljanlegt form með jákvæðum boðskap.

Það þarf svo ekki annað en að kasta peningum í nægilega flotta tölvuteikningu, panta frægar raddir og þá er kominn nýr hittari. Hér er að vísu áður búið að vinna mestalla erfiðisvinnuna í sölunni vegna þess að um framhald er að ræða.

Þessi fjörmikli og krúttlegi sykursjarmi sem fylgdi óvænt með fyrri myndinni er svo gott sem horfinn í Trolls World Tour, sem leggur sín efnistök á lofandi grunn en nær ómögulega að réttlæta fulla kvikmyndalengd. Minni áhersla er lögð á sögu og verður atburðarásin strax útþynntari þegar playlistinn og bratt hopp á milli mismunandi litaumhverfa er lykilfókusinn.

Eflaust er til of mikils ætlast að biðja um rík efnistök í barnaævintýri um söngglöð lukkutröll, en það ætti samt ekki að vera erfitt að fylla upp í rúmar 80 mínútur, sérstaklega með eins víðan tónlistarvöll til að dekka og hér. Lykilhráefnið sem vantar kemur í formi persónusamskipta, trúverðugleika einlægni og töfra sem er allverulega ábótavant í þessum túr.

Myndin snýst í hnotskurn um það hvernig heimur tröllanna er brotinn upp í sex ólík svæði. Hvert þeirra er tileinkað ákveðinni týpu af tónlist; aðalpersónurnar Poppy og Branch eru kenndar við poppmúsík en í upphafi sögu komast þær að tilvist tegunda sem tákna rokk, kántrí, fönk, klassík og teknó (já, þar með er allt upptalið). Uppsprettan að öllum tónlistartöfrum þessara trölla eru tónstrengir. Andstæðingur myndarinnar er rokkdrottningin Barb sem svífst einskis í að safna öllum strengjunum til að útrýma allri samkeppninni og ráða yfir tröllaheiminum með yfirbugandi rokki. Það vantar bara hanskann og þá er Barb bersýnilega orðin að eftirmynd Þanosar úr Avengers myndunum.

Ef hvert lag eða tónlistarnúmer er metið fyrir sig skilar það oft frá sér orkunni sem til er ætlast, en stöðug „glymskratta-mixin“ verða þunn til lengdar – og verða að pjattaralegum blendingi í staðinn – en þá ekki síst vegna þess að söguheimurinn snertir á fimm mismunandi tegundum tónlistar en moðar ótrúlega lítið úr þeim möguleikum sem það býður upp á. Þetta er ein stór kennsla í skítamixi.

Raddleikararnir eru vissulega allir upp á sitt hressasta, grafíkin er poppandi kát og eins flott og sjálfsagt þykir frá kompaníi eins og DreamWorks. Eins og áður nefndi hefur myndin huggulegan kjarna sem í grunninn sem brýnir fyrir börnum mikilvægi þess að vera öðruvísi upp til hópa, hversu mikilvægt það er að hlusta og að treysta aldrei sögubókunum til fulls. Þessum skemmtilegu fræjum er sáð en þau verða að litlu öðru en stuttum fyrirlestri.

Meinta fræðslugildið í bland við litlu, sykruðu og barnvænu sýrutrippin og athyglisbrestinn gera það verkum að Trolls World Tour skilar af sér þeirri barnapíu sem að lágmarki er krafist af henni. Aftur á móti, þegar hún er borin saman við fyrri myndina þá var ferskleika, hjartahlýju og krúttþróun persónanna gefin þar meiri gaumur.

Í þeirri lotu gekk bæði steikin, sönggleðin og skítamixið betur upp, en þessi er meira eins og miklu betri saga grafin undir kvikmynd sem er aðallega vörupöntun fyrst og fremst, en bíómynd með fúnkerandi sál í öðru sæti.