Einn fremsti leikjahönnuður samtímans dásamar Kötlu

Hideo Kojima, einn af þekktustu leikjahönnuðum heims, oft kenndur við Metal Gear Solid seríunna og stofnandi Kojima Productions, virðist vera mikill aðdáandi KÖTLU, sjónvarpsþáttanna vinsælu á Netflix, og Baltasars Kormáks. Kojima hefur verið duglegur að mæla með seríunni á samfélagsmiðlum sínum með eftirtektarverðum færslum.

Kojima kveðst hafa kynnst KÖTLU þegar hann sá stiklu þáttanna og þótti honum efnið svipa til tölvuleiksins Death Stranding, sem kemur úr smiðju hönnuðarins.

Dagana 24.-30. júní var gerð könnun á vegum Prósent og kom þar fram að um 36% Íslendinga hafa horft á alla þættina á Netflix og 20% hafa byrjað að horfa á þá. Um 29% Íslendinga töldu að þau muni horfa á þættina og aðeins 15% ætla líklega ekki að horfa á þá. Konur eru marktækt líklegri til að hafa horft á þættina en karlar, en 41% kvenna höfðu klárað alla þættina en aðeins 31% karla.

Meirihluti svarenda telja þættina vera góða, en á skalanum 1-5 gáfu Íslendingar þáttunum 4 í einkunn. Af þeim sem horft höfðu á þættina töldu 78% þættina vera góða, 15% töldu þá vera hvorki góða né slæma og 7% töldu þá vera slæma. Lítill munur var á einkunnargjöf á milli hópa, en konur voru aðeins ánægðari en karlar og fólk á landsbyggðinni töldu þættina vera betri en fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Katla er fyrsta íslenska þáttaröðin sem Netflix framleiðir alfarið. Með helstu hlut­verk fara Guðrún Ýr Eyfjörð, Íris Tanja Flygenring, Ingvar Sig­urðsson, Þor­steinn Bachmann, Sól­veig Arn­ars­dótt­ir, Guðrún Gísla­dótt­ir, Baltas­ar Breki, Björn Thors, Har­ald­ur Ari Stef­áns­son, Birgitta Birg­is­dótt­ir, Helga Braga Jóns­dótt­ir, Björn Ingi Hilm­ars­son, Al­dís Amah Hamilt­on, Hlyn­ur Atli Harðar­son og Sví­arn­ir Aliette Oph­eim og Valter Skars­gård.