Segir skilið við leiklistina

Breska leikkonan Emma Watson hefur ákveðið að leggja leikferilinn á hilluna og einblína á önnur verkefni. Þetta staðfestir umboðsmaður hennar í samtali við fréttaveituna Daily Mail og segir það öruggt að Watson muni ekki þiggja fleiri hlutverk í framtíðinni.

Watson var aðeins níu ára þegar hún var valin úr röð stúlkna í leikfimisalnum í skólanum sínum til að fara í prufur fyrir væntanlega kvikmynd um galdradrenginn Harry Potter. Þetta var fyrsta prufan sem hún fór í og eins og frægt er orðið fékk hún hlutverkið. Watson fór með hlutverk Hermione Granger í samtals átta kvikmyndum.

Nú eru rúm tuttugu ár síðan og varð Watson þrítug á síðasta ári. Hún hefur ekki setið með hendur í skauti síðan Hogwarts-göngunni lauk, enda hefur hún verið virkur talsmaður kvenréttinda og vann meðal annars með Sameinuðu þjóðunum að átakinu HeForShe sem hófst í september 2014.

Watson hefur einnig vakið mikla lukku í kvikmyndum á borð við The Perks of Being a Wallflower, The Bling Ring, Noah, Beauty and the Beast og Little Women.