Ólíklegt að stórmynd Pratts komi í bíó

Lengi hefur staðið til að frumsýna stórmyndina The Tomorrow War í kvikmyndahúsum. Upphaflega átti að frumsýna myndina í fyrra, en hún var síðar færð til júlímánaðar 2021.

Þykir nú líklegt að myndin sleppi alfarið bíóútgáfu þar sem streymisrisinn Amazon Prime er í samningaviðræðum um að tryggja sér sýningarréttinn.

Samkvæmt vef Variety á eftir að ganga frá lausum endum en hermt er að Amazon bjóði allt að 200 milljónir Bandaríkjadollara fyrir vísindatryllinn þar sem leikarinn Chris Pratt spókar sig í íslensku landslagi.

Tökur á The Tomorrow War fóru meðal annars fram á Vatnajökli undir lok árs 2019. Myndin, sem áður bar vinnuheitið Ghost Draft, gerist í framtíðinni þar sem mannkynið á stríði við geimverur með litlar sem engar sigurlíkur. Til að eiga möguleika á að vinna stríðið finna vísindamenn leið til að sækja hermenn úr fortíðinni. Má þess geta að Pratt er einn af framleiðendum myndarinnar en leik­stjóri er Chris McKay sem er þekkt­ast­ur fyr­ir Robot Chicken ásamt The Lego Batman Movie.

Auk Pratt fara þau Yvonne Srahovski, J.K. Simmons, Sam Richardson, Mary Lynn Rajskub, Felisha Terrell og Betty Gilpin með hlut­verk í mynd­inni.