Stórleikarar í nýjustu mynd Gríms

Leikararnir Miles Teller, Shailene Woodley og William Hurt fara með aðalhlutverkin í nýjustu mynd Gríms Hákonarsonar, The Fence. 

Það er fréttamiðillinn Deadline sem greindi fyrst frá þessu en þar kemur fram að söguþráður myndarinnar snúist um kostulegar nágrannaerjur. Þau Teller og Woodley fara með hlutverk nýgifts pars sem stangast á við nágranna sinn, leikinn af Hurt, sem er íhaldssamur fyrrum hermaður og hyggst byggja tæplega þriggja metra hátt grindverk til að halda heimili sínu öruggu frá mögulegum hryðjuverkamönnum.

Um er að ræða pólitíska ádeilu og hefjast tökur í mars næstkomandi. Þetta er fjórða kvikmynd Gríms í fullri lengd en hann er einna þekktastur utan landsteinanna fyrir myndina Hrúta, sem hlaut verðlaun á hinni virtu kvikmyndahátíð í Cannes í Frakklandi. Auk þeirra hefur hann leikstýrt myndunum Sumarlandið og Héraðið.

Teller kannast margir hverjir við úr kvikmyndunum Whiplash, Fant4stic og The Spectacular Now. Woodley er hvað þekktust fyrir Divergent-myndirnar (þar sem Teller fór einnig með stórt aukahlutverk), The Fault in our Stars, Adrift í leikstjórn Baltasars Kormáks og ekki síst The Spectacular Now.

William Hurt er annars vegar Óskarstilnefndur leikari sem gerði garðinn frægan í myndum á borð við Kiss of the Spider Woman, Body Heat, Altered States of The Big Chill.

Þegar Kvikmyndir.is hafði samband við Grím vildi hann ekki tjá sig um verkið en ritstjórn óskar honum engu að síður til lukku með verkefnið og árangurinn.