Borat væntanlegur í október

Bragðarefurinn Borat Sagdiyev, betur kunnugur sem dáðasta persóna grínarans Sacha Baron Cohen, snýr aftur á skjáinn – töluvert fyrr en áhorfendur reiknuðu með. Virðist sem að Cohen hefur unnið að framhaldsmynd í laumi en fyrr á árinu sást til hans víða á ýmsum uppákomum í Bandaríkjunum. Miðað við þá staði og viðburði sem Cohen hefur birst á hefur þótt líklegt að myndin komi út fyrir bandarísku forsetakosningarnar.

Á dögunum var greint frá því að Amazon Studios hefur tryggt sér réttinn á Borat framhaldinu, sem heitir hinu kostulega nafni (og dragið andann djúpt) Borat: Gift of Pornographic Monkey to Vice Premiere Mikhael Pence to Make Benefit Recently Diminished Nation of Kazakhstan.

Búist er við að framhaldið rati á streymisþjónustu Amazon þann 23. október og verður aðgengileg í 240 löndum.

Kvikmyndin um Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan kom út árið 2006 og naut fádæma vinsælda. Í kjölfarið gerði Cohen myndir á borð við Bruno og The Dictator, sem náðu ekki sömu vinsældum.