Ósátt við nýju skilyrði Óskarsins: „Þið hafið öll misst vitið“

Leikkonan Kirstie Alley gagnrýnir harðlega bandarísku kvikmyndaakademíuna eftir að sett voru ný skilyrði sem kvikmyndir þurfa að uppfylla til að eiga möguleika á Óskarstilnefningu. Þessi skilyrði taka gildi frá og með verðlaunahátíðinni árið 2025 og eiga að tryggja fjölbreytni meðal leikaraliðs og framleiðsluteymis.

Leikkonan kveðst styðja fjölbreytni en segir þessar afmarkanir vera í stíl við hugmyndafræði úr bókum George Orwell. Vill hún meina að þetta setji fullmiklar hömlur á Óskarsferlið og sé ekki bransanum bjóðandi.

Alley vakti mikla athygli á Twitter-síðu sinni og veitir þar engan afslátt: „Þetta er listafólki til skammar,“ segir hún og bætir þá við:

„Ímyndið ykkur að segja Picasso hvað hefði þurft að vera í fjandans málverkum hans. Þið [hjá akademíunni] hafið öll misst vitið. “

Skilyrði Óskarsakademíunar eru fjögur talsins en kvikmyndir sem sækjast eftir tilnefningu þurfa að uppfylla að minnsta kosti tvö þeirra.

Eftirfarandi deildir eru tilgreindar, þar sem fulltrúa minnihlutahópa er krafist: Hið minnsta einn leikari í aðalhlutverki, eða mikilvægu aukahlutverki, þarf að tilheyra einhvers konar minnihlutahópi. Hið sama gildir um listræna stjórnendur, millistjórnendur og tökulið, eða launaða starfsnema og síðan alla sem starfa við kynningar- og markaðsmál.

Samkvæmt akademíunni teljast ýmsir kynþættir og þjóðarbrot til minnihlutahópa, auk kvenna, hinseginfólks og fólks með fötlun.