Chadwick Boseman látinn

Bandaríski leikarinn Chadwick Boseman lést í gær, 43 ára að aldri. Banamein hans var ristilskrabbamein en þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans. Leikarinn lést á heimili sínu í Los Angeles og voru eiginkona hans og nánasta fjölskylda við dánarbeð hans.

Boseman varð heimsfrægur fyrir hlutverk sitt sem Black Panther úr ofurhetjuheimi Marvel. Hin samnefnda mynd frá árinu 2018 sló hvert aðsóknarmetið á eftir öðru og varð hún jafnframt fyrsta myndin gerð eftir teiknimyndasögu sem hlaut tilnefningu fyrir bestu mynd á Óskarsverðlaununum. 


Persónan Black Panther/T’Challa var fyrst kynnt til sögunnar á hvíta tjaldinu í myndinni Captain America: Civil War árið 2016, en Boseman endurtók hlutverk sitt í Avengers: Infinity War og síðar í Avengers: Endgame.

Fyrr á ferlinum hafði hann vakið mikla athygli fyrir túlkun sína á tónlistargoðinu James Brown í myndinni Get on Up og þótti hann eftirminnilegur í myndum á borð við Da 5 Bloods eftir Spike Lee, Gods of Egypt og 42, sem fjallaði um hafnaboltahetjuna Jackie Robinson.

Til stóð að hann yrði væntanlegur í framhaldsmynd Black Panther árið 2022.