Áhorfsteiti með leikara úr Jurassic Park

„Við sitjum öll þessa dagana og bíðum eftir að þessir óhugnanlegu óvissutímar líða hjá. Sjálfum hefur mér þótt sérstaklega gaman að nýta tímann og horfa á klassískar kvikmyndir og það er mitt kalda mat að Jurassic Park sé með þeim betri í kvikmyndasögunni.“

Þetta segir Bandaríski leikarinn Joseph Mazzello en hann hvetur flesta Jurassic Park aðdáendur til að horfa á myndina með sér, í svonefndu glápspartíi (e. „watch party“) gegnum streymi. Fyrir þá sem ekki vita lék Mazzello risaeðluunnandann Tim, annað afabarn John Hammond, í myndinni. Leikarinn var 9 ára gamall þegar tökur stóðu yfir á Júragarðinum en á seinni árum hefur hann átt hlutverk í kvikmyndum á borð við The Social Network og Bohemian Rhapsody.

Áhorfsteitið með leikaranum verður á fimmtudaginn næsta (23. apríl), snemma um kvöldið á staðartíma en á miðnætti (00:00) á íslenskum tíma. Mazzello mun spila myndina (utan skjás) og bjóða áhorfendum upp á yfirlestur í beinni þar sem hann deilir alls konar kostulegum sögum á bakvið tjöldin.

Yfirlesturinn og streymið verður í boði kvikmyndaversins Universal og IGN á síðarnefndum vef. Þó verður það undir áhorfendum komið að útvega sér eintak af kvikmyndinni. Hörðustu aðdáendur eiga varla erfitt með það.

„Ég hlakka mikið til að deila með ykkur sögum, fróðleik og ýmsum fyndnum minningum frá tökum,” segir Mazzello og bætir þá við því sem blasir við:

„Þetta verður stuð!“