Útilokar ekki aðra Kill Bill: „Þetta er algjörlega í spilunum“

Eins og mörgum kvikmyndaáhugamönnum er kunnugt, stendur til hjá hinum virta leikstjóra Quentin Tarantino að skella í lás að loknu tíunda framlagi sínu til kvikmyndagerðar. Aðdáendur mannsins eru þegar farnir að ræða sín á milli hvernig svanasöngur hans muni verða og hvers lags efni verði fyrir valinu. Krossleggja margir fingur og vona að síðasta mynd leikstjórans verði áframhald af sögunni í Kill Bill.

Tarantino er þekktur fyrir að gefa loforð um ýmis verkefni sem aldrei verða að veruleika, hvort sem kvikmyndirnar fjalli um Vega-bræður eða ævi John Brown. Tarantino hefur þó ekki enn útlokað áhugann á Kill Bill vol. 3 (eða Kill Bill 2, veltandi á því hvort viðkomandi sjái hina sem eina eða tvær kvikmyndir). Liðin eru fimmtán ár síðan Uma Thurman gekk á milli skúrka í hefndarhug og fengu báðar Kill Bill-myndirnar frábæra aðsókn og enn betri viðtökur áhorfenda.

Leikstjórinn sagði nýverið í útvarpsþættinum Andy Cohen Live að ferlið að leggja í aðra Kill Bill kvikmynd tæki þrjú ár, í það minnsta. „Þetta er algjörlega í spilunum,“ segir hann. Tarantino gefur þó ekki upp hver hugmyndin er að næsta kafla, en segist þó vera með nálgun í huga að sögu sem honum þykir spennandi.

„Ég vil ekki skrifa eitthvað handahófskennt, fáránlegt ævintýri. Brúðurin á það ekki skilið. Hún hefur barist af mikilli hörku og á skilið lengri hvíldartíma,“ segir Tarantino og tekur einnig fram í viðtalinu að hann hafi hitt á leikkonuna Umu Thurman til að ræða margs konar hugmyndir varðandi brúðurina, Beatrix Kiddo, en sú persóna er sameiginleg sköpun þeirra Thurman og Tarantino.