Eyþór lofsyngur Spinal Tap – Segir frasana enn notaða í tónlistarbransanum

Eyþór Ingi Gunnlaugsson tónlistarmaður sá gamanmyndina This is Spinal Tap í fyrsta skiptið þegar hann var í framhaldsskóla og hafði hún mikil áhrif á hann á þeim mótandi árum. Enn þann dag í dag horfir Eyþór reglulega á myndina og alltaf nýtur hann þess jafn mikið.

„Þetta er ein af þessum myndum sem maður horfir rosalega oft á en veit ekki alveg af hverju. Hún er kannski ekkert ofsalega merkileg en verður einhvern veginn fyndnari eftir því sem maður horfir á hana og talar oftar um hana,“ segir Eyþór hress í samtali við Bíóást á RÚV.

„Það eru atriði í myndinni sem eru brilljant og frasar sem fólk í tónlistarbransanum notar enn í dag, bætir hann við. „Frasar eins og magnarinn fer upp í ellefu,“ og þegar giggið er vandræðalegt að segja: „þetta var spænall.““

„Þetta var á sínum tíma, og jafnvel enn í dag, rosalega gott skot á svona 80’s glamrokkara í þröngum buxum með sápuþvegið hár út í loftið,“ segir hann, en Eyþór segir að markmiðið með heimildarmyndastíl myndarinnar hafi upphaflega verið til að gabba þyrsta glamrokkara, í þeirri von um að sveitin myndi eignast raunverulega aðdáendur.

Þetta gekk eftir samkvæmt Eyþóri og urðu væntanlega margir svekktir að átta sig á að þeir hefðu verið plataðir, og þyrftu nú að fela Spinal Tap stuttermabolina og rífa plakötin niður af veggjum. Gjörningurinn hélt síðan áfram. „Það er líka til tónleikamynd sem heitir Spinal Tap og þar taka þeir þetta enn lengra,“ segir Eyþór.

This is Spinal Tap er sýnd í kvöld á RÚV kl. 20:35