Breskur Statham þriller væntanlegur á næsta ári

Hinn grjótharði Jason Statham er kominn á fullt skrið eftir að hafa verið að leika sér með Sylvester Stallone og fleiri góðum í hasarsmelli síðasta sumars, Expendables. Kvikmyndatímaritið Empire segir frá því að tökur á breska glæpaþrillernum Blitz hafi staðið yfir síðasta sumar og hér fyrir neðan má sjá fyrsta sýnishornið úr myndinni.

Sagan er kunnugleg, og eitthvað á þessa leið; upptrekkt lögga tekur lögin í eigin hendur og dregur nýja félaga sinn, sem vill gera hlutina eftir bókinni, með sér í vitleysuna. Í myndinni er blanda af öllu því sem maður býst við að fá frá Statham, slagsmál, bílaeltingarleikir, og byssubardagar.

Myndin er byggð á harðsoðinni skáldsögu eftir Ken Bruen og fjallar um fjöldamorðingja sem myrðir lögreglumenn. Handrit skrifar Nathan Parker, og leikstjóri er Elliott Lester.

Bókin er í raun þriðja bók í seríu, og því er möguleiki á framhaldi, ef myndin gengur vel.

Luke Evans, Aiden Gillen og David Morrissey leika einnig í myndinni, sem verður frumsýnd á næsta ári í Bretlandi. Næsta Statham mynd sem kemur í bíó er The Mechanic, sem kemur 28. janúar nk.