Brad Bird vill aðra Incredibles mynd

Í enda ársins kemur út fjórða Mission Impossible myndin, Ghost Protocol, en hún markar fyrsta skiptið sem að leikstjórinn Brad Bird leikstýrir kvikmynd utan seilingar Pixar eða Disney. Að mati margra er stærsta afrek hans til þessa Pixar-myndin frá árinu 2004, The Incredibles, og hefur fólk grátbeðið um framhald síðan. Maðurinn var nýlega í viðtali við síðuna Movies.com og talaði þá um möguleikann á að gera aðra Incredibles mynd og í raun útfærði hann svar sitt frá árinu 2007, varðandi það hvort að saga væri komin fyrir myndina: „Ég er með hluta sem mér finnast góðir, en ég er ekki kominn með heildarmyndina.“

Við Movies.com sagði hann: „Ég vil gera framhald því ég er með eitthvað sem er jafn gott, ef ekki betra, en upprunalega myndin. Toy Story 2 var, fyrir mér, fullkomið framhald, vegna þess að það virti algjörlega fyrstu myndina en fann nýja staði til að fara á án þess að bregðast persónunum. Þannig ef ég get komið með hugmynd sem er fyrir The Incredibles það sem Toy Story 2 var fyrir Toy Story, myndi ég gera hana á stundinni,“. Hann bætti einnig við að þó að margar góðar hugmyndir séu komnar, er ekki enn nóg í kvikmynd í fullri lengd og það síðasta sem hann vill gera er að gefa út mynd bara fyrir stóra opnunarhelgi. Hann hefur líka þverneitað að leyfa öðrum leikstjórum Pixar að taka við verkefninu: „Ég er ekki beint hlynntur því að leyfa öðrum að taka barnið mitt burt.“

Mission Impossible: Ghost Protocol er væntanleg 16. desember næstkomandi, en eftir það mun Bird leikstýra hamfaramyndinni 1906, þannig enn er eitthvað í Incredibles 2.