Borðar ekki dýr sem gráta

Bandaríski leikarinn Bruce Dern, sem leikur í myndinni Nebraska, sem verður frumsýnd í næstu viku í Bandaríkjunum, segist ekki borða dýr sem eru með tárakirtla: „Ég reyni að snæða ekki neitt með tárakirtla,“ segir Dern við vefritið The Vulture. „Og ég borða ekki svín, af því að svín gráta. Ég er ekki hrifinn af því. Ég er ekki að segja að maður verði að vera grænmetisæta, en þú veist, það er líka hægt að fá sér hnetusmjörssamloku í staðinn.“

NEBRASKA

Þó að Dern sé frekar tuskulegur á myndinni hér fyrir ofan, sem er úr Nebraska, þá lítur hann ekki svona út í raunveruleikanum: „Ég lét bara allt flakka og vaxa og hanga,“ sagði hann. „Konan mín suðaði endalaust í mér, “ losaðu þig við nasahárin, hreinsaðu eyrun, ekki láta mannbrjóstin hanga svona, og réttu úr þér maður, í guðs bænum“ og hún hafði rétt fyrir sér með þetta allt saman – þannig að hún kom aldrei á tökustað Nebraska. Og til allrar hamingju segi ég bara, því ég var með allt lafandi úr nösunum.“