Beetlejuice 2 með Burton og Keaton?

Heimildir Variety kvikmyndaritsins herma að leikstjórinn Tim Burton eigi í viðræðum um að leikstýra nýrri Beetlejuice mynd, en hann leikstýrði fyrri myndinni, og að Michael Keaton muni snúa aftur sömuleiðis í hlutverki draugsins spaugsama og hrekkjótta; Beetlejuice.

betleljuice-reboot

Seth Grahame Smith er búinn að skrifa handrit myndarinnar og mun framleiða hana ásamt félaga sínum David Katzenberg.  Grahame-Smith tísti nýlega um stórar fréttir sem væru á leiðinni, og við það fór orðrómurinn af stað sem aldrei fyrr.

Aðilar sem tengjast verkefninu hafa sagt Variety frá því að Keaton hafi sýnt áhuga á að snúa aftur eftir að Warner Bros. tilkynnti nýlega að framhaldsmynd yrði gerð. Aðkoma Burton er hinsvegar óvæntari.

Burton hefur hingað til ekki verið hrifinn af framhaldsmyndum, en síðasta slíka mynd hans var Batman Returns frá árinu 1992. Leikstjórinn er þessa dagana við tökur á myndinni Big Eyes með leikurunum Christoph Waltz og Amy Adams.

Burton og Grahame-Smith unnu saman að Abraham Lincoln: Vampire Hunter, sem gæti skýrt það að Burton sé nú tilkippilegur að skoða Beetlejuice.

Burton og Grahame-Smith unnu sömuleiðis saman að Johnny Depp myndinni Dark Shadow sem frumsýnd var á síðasta ári.