Batman-hlutverk Gordon-Levitt afhjúpað?

Nýlega var staðfest að leikarinn Joseph Gordon-Levitt myndi leika í næstu mynd Christopher Nolan um Leðurblökumanninn, The Dark Knight Rises. Margar kenningar hafa verið á sveimi varðandi hlutverk Gordon-Levitts en meðal annars var því haldið fram að hann myndi leika Robin, hjálparhellu Batman.

Tímaritið Variety heldur því nú fram að hlutverk Gordon-Levitts verður Alberto Falcone. Persónan er sonur mafíósans Carmine Falcone, sem Tom Wilkinson lék í Batman Begins.

Nolan, sem leikstýrði Gordon-Levitt í Inception á seinasta ári, vinnur nú að því að fínpússa handritið að The Dark Knight Rises, en tökur hefjast í maí.

– Bjarki Dagur