The Batman er ekki öruggt mál

Ben Affleck hefur nú þegar leikið ofurhetjuna Batman í tveimur myndum, Batman v Superman: Dawn of Justice og Justice League, sem frumsýnd verður síðar á þessu ári. Til stóð að hann myndi skrýðast Batman hempunni í þriðja skiptið í sérstakri Batman mynd, The Batman, sem hann myndi auk þess sjálfur leikstýra. Nú gæti hinsvegar babb verið komið í bátinn.

BATMAN v SUPERMAN: DAWN OF JUSTICE (2016) BEN AFFLECK as Batman

Í nýju samtali við breska blaðið The Gurdian segir Affleck að svo gæti farið að hann muni alls ekki leikstýra myndinni. „Það var planið,“ sagði leikarinn um mögulega leikstjórn sína á The Batman. „En þetta er ekki öruggt og það er ekkert handrit komið. Ef það verður ekki nógu gott, þá mun ég ekki gera þetta.“

Í júlí sl. sagði Affleck að hann væri með handrit fyrir Batman-mynd í höndunum, en hann „væri ekki nógu ánægður með það ennþá“.

„Við erum enn að vinna að því, og ég er ekki enn nógu ánægður til að geta farið og gert Batman mynd eftir því, því ég set markið hátt.“

Ekki er búið að ákveða frumsýningardag fyrir The Batman. Justice League kemur í bíó 17. nóvember nk. Ben Affleck getum við barið augum bráðlega í Live By Night.