Barbie er fundin – Robbie leikur og framleiðir

Samkvæmt vefmiðlinum Entertainment Online þá hefur hin Óskarstilnefnda The Wolf of Wall Street og Suicide Squad leikkona Margot Robbie verið ráðin í hlutverk engrar annarrar en dúkkunnar Barbie, í nýrri leikinni mynd.

Robbie kemur einnig að framleiðslu myndarinnar í gegnum fyrirtæki sitt Lucky Chaps. Barbie myndin hefur lengi verið á teikniborðinu hjá Sony, en nú standa yfir viðræður á lokastigi við Warner Bros. kvikmyndaverið varðandi dreifingu myndarinnar, samkvæmt ET.

Ekkert er enn vitað um söguþráð myndarinnar, en í söguheimi Barbie er af nógu að taka, enda hefur Barbie verið móðir, grænmetisæta, geimfari, kennari, forseti, rokkstjarna, og eiginlega hvað sem manni dettur í hug.

Fyrst var sagt frá væntanlegri Barbie mynd árið 2014 og svo aftur árið 2016. Gamanleikkonan Amy Schumer var um tíma orðuð við hlutverkið. Hún hætti síðar við þátttöku vegna árekstra við önnur verkefni. Í júlí árið 2017 var sagt frá því að Óskarsleikkonan Anne Hathaway myndi leika dúkkuna. Af því varð ekki.

Nú er að bara að bíða eftir fregnum af frekari ráðningum í myndina, eins og í hlutverk Ken, kærasta Barbie, til dæmis …