Upplifun frekar en afþreying

Þann 6. apríl árið 1917 í miðri fyrri heimsstyrjöldinni fá tveir breskir hermenn, sem staðsettir eru í Norður-Frakklandi, mikilvægt hlutverk. Þeir Blake (Dean-Charles Chapman) og Schofield (George MacKay) þurfa að koma þeim áríðandi skilaboðum til 1.600 manna herdeildar sem komin er að víglínu Þjóðverja að hún sé um það bil að ganga í gildru og verði þurrkuð út eins og hún leggur sig. Nánast er um sjálfsvígsför að ræða þar sem óvinir leynast alls staðar á leiðinni en helsti drifkraftur Blakes er sá að meðal hermannanna þar er bróðir hans.

„1917“ er leikstýrt af Sam Mendes („American Beauty“, „Skyfall“ og „Spectre“) og efniviðurinn er innblásinn af reynslu afa hans Alfred H. Mendes í Stríðinu mikla. Sagan sem hér er sögð greinir frá miklu þrekvirki sem einkennist af hugrekki og fórnfýsni og Mendes kýs að keyra hana áfram á nýstárlegan máta. Sagan gerist í rauntíma og virðist myndin fljóta óklippt í gegn allan tímann en vissulega eru klippurnar margar en vel tekst til að láta líta út eins og svo sé ekki. Allar raunirnar sem hermennirnir upplifa og hætturnar sem bíða þeirra eru enn áþreifanlegri fyrir áhorfandann og vel tekst til með að halda dampi og flæði í gegnum myndina.

Hugrekki.

Nálgun sem þessi gæti allt eins dregið áhorfandann frá kjarna efniviðarins og hann gleymt sér í tæknilegri fágun, en hér missir Mendes aldrei sjónar á persónunum og markmiði þeirra. Það er enginn ofsa hraði út allan sýningartímann og nokkur róleg atriði gefa áhorfendum, rétt eins og persónunum, tækifæri til að kasta mæðinni en þessi hægu augnablik gefa þeim einnig meiri dýpt. „1917“ má því frekar líkja við upplifun frekar en afþreyingu.

Tónlistin áhrifamikil

Tæknivinnsla er öll fyrsta flokks og allt útlit myndarinnar er stórkostlegt. MacKay og Chapman standa sig með stakri prýði í rullum sínum og úrval gestaleikara á borð við Colin Firth, Mark Strong, Benedict Cumberbatch og Richard Madden skemmir ekki fyrir. Tónlistin eftir Thomas Newman er áhrifamikil og gefur mörgum senum aukinn kraft; sér í lagi er magnaður kafli þegar eldar geysa og sprengjuhljóð óma að næturlagi í frönsku þorpi sem er orðið nánast rústir einar.  

„1917“ er vel heppnuð stríðsmynd í alla staði og óhætt að mæla með henni. Hún mun án efa hirða nokkrar Óskarsstyttur 9. febrúar næstkomandi.