Austin Powers stjarna í meðferð

Austin Powers stjarnan Verne Troyer hefur skráð sig í meðferð á sjúkrastofnun, vegna áfengissýki.

Leikarinn, sem er 48 ára gamall, er þekktastur fyrir leik sinn í hlutverki Mini-Me í Austin Powers seríunni, auk þess sem hann hefur leikið í myndum eins og The Imaginarium of Doctor Parnassus, Fear And Loathing In Las Vegas og Men In Black.

TMZ vefurinn segir frá þesssu og rifjar upp að leikarinn hafi gengið mjög nærri sér árið 2002, og verið nær dauða en lífi vegna áfengisneyslu.

Troyer sagði frá þessu á Facebook síðu sinni: „Áhyggjufullir aðdáendur mínir hafa verið að hafa samband, þannig að ég vil sjálfur segja frá málinu. Eins og þið þekkið þá hef ég átt við áfengisvandamál að stríða, og það hefur ekki alltaf verið auðvelt. Ég er nú tilbúinn að berjast áfram, frá degi til dags. Ég vil þakka öllum sem hafa stutt mig. Með ykkar stuðningi mun ég ná að yfirvinna þetta.“

Leikarinn er nú til meðferðar á San Fernando sjúkrahúsinu. Troyer er þekktur fyrir hæð sína, en hún er aðeins rúmir 80 sentimetrar. Hann hefur verið mikilvæg fyrirmynd fyrir smávaxið fólk, en árið 2014 gerði hann heimildarmyndina Incredibly Small World fyrir National Geographic þar sem hann ferðaðist um allan heim og hitti dvergvaxið fólk.