Arquette á sjúkrahúsi eftir fjölbragðaglímu

Scream leikarinn David Arquette dvelur nú á spítala þar sem hann er að jafna sig á meiðslum sem hann varð fyrir í fjölbragðaglímu um síðustu helgi, svokölluðu „wrestling death match.“

Hann gaf út yfirlýsingu á Twitter á mánudaginn síðasta þar sem hann ræddi meiðslin, eftir að aðdáendur hans fóru að deila ljósmyndum og myndböndum af honum alblóðugum á netinu.

„Eins og einhverjir gætu hafa séð, þá slasaðist ég í glímu í síðustu viku,“ skrifaði Arquette. „Ég vildi tjá mig um myndirnar sem hafa birst, þar sem þetta er ekki samskonar glíma og menn sjá í sjónvarpinu.“

Og Arquette hélt áfram: „Ég vissi að þetta væri ofbeldisfullt og blóðugt, en vissi ekki alveg hve umfangið var mikið. Ég tek hinsvegar fulla ábyrgð á þátttöku minni.“

Tveggja barna faðirinn Arquette skrifar svo einnig: „Síðustu sex mánuðina hef ég æft og keppt í litlum bardögum um allt landið, þar sem fjölbragðaglíma er ástríða hjá mér. Ég tek aftur fram að þetta er ekki hefðbundin fjölbragðaglíma, og ég ber mikla virðingu fyrir þeirri íþrótt.“

Hann bætti við að hann hefði ekki í hyggju að æfa fyrir aðra viðureign, og skrifaði: „Ég vil einnig biðja fjölbragðaglímuheiminn afsökunar fyrir alla neikvæða umræðu sem hefur hlotist af þessu, og ég hef engin áform um að taka þátt í svona viðureign aftur.“

Þá þakkaði hann vinum og fjölskyldu fyrir stuðninginn og sagðist hlakka til að fara aftur í hringinn, en undir öðrum kringumstæðum – í nálægri framtíð. „En það sem er alltaf í fyrsta sæti er leikur og framleiðsla, og ég hlakka til að segja frá nýjum verkefnum árið 2019. Ástarkveðja David Arquette.“