Aronofsky skoðar morðóða hjúkku

patty smith, darren aronofskySamkvæmt upplýsingum sem joblo.com hefur úr The Tracking Board,  þá mun kvikmyndaleikstjórinn Darren Aronofsky, sem er Íslendingum að góðu kunnur eftir að hann tók Biblíustórvirkið Noah upp hér á landi, hafa hug á að leikstýra myndinni The Good Nurse eftir handriti sem Krysty Wilson-Cairns er að vinna upp úr samnefndri bók, fyrir framleiðslufyrirtækið Lionsgate.

Myndin fjallar um hjúkrunarfræðinginn Charlie Cullen, sem fljótlega fékk á sig viðurnefnið „Engill dauðans“ í fjölmiðlum, eftir að hann var handtekinn árið 2003. En Cullen var hvorki venjulegur líknarmorðingi né dæmigert skrímsli. Hann var vel liðinn sonur, eiginmaður, faðir, besti vinur og viðurkenndur í sínu fagi. En bendlun hans við dauða allt að 300 sjúklinga, gerði hann líklega að afkastamesta fjöldamorðingja í sögu Bandaríkjanna.

Morðferill Cullen spannaði sextán ár við níu spítala í New Jersey og í Pennsylvaníu, eða þar til hann var sakfelldur í mars árið 2006.

Þó að Aronofsky sé tengdur þessu verkefni sem stendur, eins og JoBlo bendir á, þá er það ekki hundrað prósent víst að hann endi svo á því að leikstýra myndinni, en sagan ætti þó að geta heillað hann nógu mikið til að takast á við verkefnið!