Allir ganga í gegnum skít

Framleiðslufyrirtækið Flying Bus, sem samanstendur af ungum kvikmyndagerðarmönnum, þeim Arnóri Elís Kristjánssyni, Heimi Snæ Sveinssyni og Knúti Hauksteini Ólafssyni,  hefur sent frá sér grínsketsinn “Yfirmaðurinn”.

Knútur Hauksteinn segir í samtali við Kvikmyndir.is að hingað til hafi þeir sent frá sér ýmsar kvikmyndatengdar skopstælingar , en nú sé um frumsaminn grínskets að ræða, sem hann segir að sé myndlíking fyrir lífið sjálft. “Allir ganga í gegnum einhvern skít í lífinu,” segir Knútur, en megin skilaboðin í sketsinum er að “Til þess að komast á toppinn þarftu að ganga í gegnum skít.”

Fyrri myndir félagsins eru Spænskir Sandar, sem var vestra skopstæling á spænsku, Drakúla, sem var íslensk skopstæling af kvikmyndinni Dracula frá 1931, og Ítalskt Kaffi sem var mafíu paródía á ítölsku, auk The Rise of Lorenzo sem var forsaga að Ítalskt Kaffi.

Kíktu á sketsinn hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: