Akira endurgerðin tekur stórt skref

Alveg síðan að upprunalega myndin kom út árið 1988, hafa framleiðendur í Hollywood reynt að fá ameríska endurgerð af meistaraverkinu Akira í framleiðslu, en hingað til hefur það gengið hægt. Um aldamótin fékk Warner Bros. réttinn að endurgerð og hafa fjölmargir stórleikarar verið festir við verkefnið en aðeins neitað þáttöku sinni nokkrum vikum síðar. Lengi voru Hughes bræðurnir (The Book of Eli) settir til að leikstýra henni, en í maí á þessu ári sögðu þeir sig frá verkefninu og aðeins tveimur mánuðum síðar var núverandi leikstjóri þess fundinn: Jaume Collet-Serra. Að sögn Variety hefur Warner Bros. nú hleypt verkefninu áfram á framleiðslustigið í febrúar eða mars á næsta ári og einnig fundið hugsanlegan aðalleikara; Garrett Hedlund. Ásamt því mun Leonardo DiCaprio sitja sem einn framleiðandi myndarinnar.

Upprunalega myndin fjallaði um hóp ungra mótorhjólakappa í Neo-Tókýó árið 2019. Eftir að þeir verða vitni af óhuggulegri starfsemi yfirvalda, er einum þeirra rænt og verða vinir hans að komast að því bæði hvar hann er og hví hann var tekinn. Ásamt því að vera hreinlega stórkostleg mynd í alla staði, hefur Akira verið hyllt sem ein ástæða þess að anime varð vinsælt utan Japan og sýndi mörgum að teiknimyndir væru ekki bara fyrir börn.

Amerísk leikin-endurgerð er því talin móðgun gagnvart bæði aðdáendum og Japönum, sérstaklega þar sem að að öllum líkindum verða flestir leikarana hvítir á hörund. Auðvitað mun tíminn aðeins leiða í ljós hvernig endurgerðin mun koma út, en á meðan mæli ég með því að kíkja á upprunalegu myndina.