Að lokinni uppvakningaplágu

ellen pageEkkert lát er á uppvakningamyndum í bíó. Enn ein slík er væntanleg innan skamms, The Third Wave, en Ellen Page hefur verið ráðin til að leika aðalhlutverkið í myndinni, sem fjallar um lífið eftir að uppvakningafaraldur hefur riðið yfir Jörðina; faraldur sem kallast þriðja bylgjan, eða The Third Wave.

Í myndinni verður búið að ráða niðurlögum plágunnar, með því að kveða vírusinn, sem breytti öllum í uppvakninga, í kútinn. Þeir sem voru „læknaðir“, og eru aftur orðnir manneskjur, þurfa nú að glíma við ýmis vandamál, hvort sem þau eru samfélagsleg eða innan eigin fjölskyldna.

Atburðirnir sem gerðust á meðan plágan geisaði hvíla þungt á fólkinu, og mikil ólga er í samfélaginu. Kynt er undir byltingu, sem knýr ríkisstjórnina til aðgerða.

David Freyne leikstýrir eftir eigin handriti, og Sam Keeley er einnig hluti af leikhópnum.

„The Third Wave kemur með algjörlega nýtt sjónarhorn á uppvakningafyrirbærið, sem ég er mjög hrifin af,“ segir Page í yfirlýsingu sem birtist á vef The Hollywood Reporter.

„David Freyne beinir hér athyglinni að hlutverki samfélagsins í heimi eftir alheimshamfarir. Ég er mjög þakklát fyrir að fá þetta tækifæri til að varpa ljósi á þennan hrylling.“

Tökur hefjast í Írlandi síðar á þessu ári.

Page, sem sást síðast í Freeheld, leikur einnig í endurgerðinni á Flatliners, og ljáir teiknimyndinni Robodog rödd sína.