Ræna Soffíu frænku

Kasper og Jesper og Jónatan og sísvanga ljónið þeirra, Bastían bæjarfógeti og Soffía frænka og aðrir íbúar Kardemommubæjar birtast á hvíta tjaldinu nú í febrúar.

Bíræfnir ræningjar.

Lífið í indæla Kardemommubænum væri svo ljúft ef ekki væri fyrir árans ólátabelgina Kasper, Jesper og Jónatan sem eru alltaf að brjótast inn hjá nágrönnum sínum.

Allt á rúi og stúi

Hjá þeim er allt á rúi og stúi og heimilið eins og óhreinatauskarfa. Þeir búa með ljóninu sem er síhungrað og þá bráðvantar ráðskonu. Þeir kokka upp áætlun um að ræna Soffíu frænku sem er fræg fyrir að hafa alla hluti í röð og reglu.

Þeir hrinda áætlun sinni í framkvæmd og ná í Soffíu frænku eina nóttina. Þegar hún vaknar kemur hins vegar í ljós að hæfileikar hennar felast ekki síður í stjórnun en þrifum. Hún stjórnar ræningjunum með harðri hendi og lætur þá sjá um þrifin.

Komnir í klípu

Smám saman verður þeim ljóst að þeir eru komnir í slæma klípu og eina lausnin er að losa sig aftur við Soffíu frænku með því að skila henni.

Þar kemur að þeir eru staðnir að verki við eitt innbrotið og handteknir og stungið í tukthúsið. Útlitið er ekki vænlegt.

Steðjar þá allt í einu mikil vá að bænum, eldur kemur upp og nú þarf hetjudáð frá einhverjum til að bjarga mannslífi. Kemur þá til kasta Kaspers, Jespers og Jónatans sem fá tækifæri til að sýna að þeir séu til einhvers gagnlegs brúklegir.

Aðalhlutverk: Hallgrímur Ólafsson, Sverrir Þór Sverrisson, Oddur Júlíusson, Örn Árnason, Stefanía Svavarsdóttir og Þórhallur Sigurðsson

Handrit: Karsten Fullu

Leikstjórn: Tómas Freyr Hjaltason