Áfram dansað á toppnum

Krakkarnir í Abbababb syngja enn og dansa af miklum krafti á toppi íslenska bíóaðsóknarlistans. Myndin er nú aðra vikuna í röð sú vinsælasta á landinu.

Ráðgáta í skóla.

Tvö þúsund og fimm hundruð manns mættu í bíó um helgina til að horfa á myndina sem er sjö prósenta samdráttur frá frumsýningarhelginni, en þá sáu 2.700 manns Abbababb. Heildartekjur kvikmyndarinnar frá frumsýningu eru nú um 9,5 milljónir króna.

Önnur vinsælasta kvikmynd landsins er Don´t Worry Darling með hinum geysivinsæla Harry Styles í einu aðalhlutverkanna. Rúmlega tvö þúsund gestir borguðu sig inn á myndina um helgina, þegar hún var frumsýnd.

Myndin í þriðja sæti aðsóknarlistans er svo Ticket To Paradise, bráðfyndin ræma með þeim George Clooney og Juliu Roberts í aðalhlutverkunum.

Berdreymi með 15,5 mkr.

Af öðrum íslenskum kvikmyndum á aðsóknarlistanum er það að frétta að Svar við bréfi Helgu er nú komin með tæpar tólf milljónir í greiddan aðgangseyri á fjórum vikum, Berdreymi er komin upp í 15,5 milljónir á 23 vikum, It Hatched er komin í rúmlega 500 þúsund á þremur vikum og tekjur kvikmyndarinnar Velkominn Árni námu um 560 þúsundum króna um helgina, en myndin er ný á lista.

Sjáðu aðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: