Dýrið á 600 tjöldum

Kvikmyndin Dýrið eða Lamb eins og hún heitir erlendis, verður sýnd á 600 bíótjöldum í Bandaríkjunum. Aldrei áður hefur íslensk kvikmynd fengið jafn mikla almenna dreifingu vestanhafs sem segir allt um það hversu mikla trú A24, dreifingaraðili myndarinnar hefur á Dýrinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum.

Myndin opnar á sama degi og James Bond en A24 eru vissir um að myndin fá góða aðsókn og muni höfða til hóps yngri áhorfenda í Bandaríkjunum en þeirra sem sækja Bond myndirnar.

„Við vitum að Dýrið er einstök perla, aðgengileg, sorgleg og fyndin. Viðbrögðin á forsýningum hafa staðfest það og yfir tíu milljónir hafa horft á kynningarstikluna. Myndin hefur alla burði til að slá í gegn hér í Bandaríkjunum og við erum ofboðslega spennt fyrir því að frumsýna hana á svona stórum skala,” segir David Laub hjá A24 í tilkynningunni.

Dýrið er sýnd í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíó Akureyri.