Tókst þú eftir þessu í WandaVision?

Sjónvarpsþættirnir WandaVision úr smiðju Marvel Studios hófu göngu sína fyrr í mánuðinum á streymisveitunni Disney+. Nú eru þrír þættir lentir þegar þessi texti er ritaður og má búast við nýjum á hverjum föstudegi næstu sjö vikurnar.

Óhætt er að segja að sjónvarpsserían er með öðruvísi sniði heldur en aðdáendur Marvel-færibandsins eru vanir og hafa viðtökur verið í heildina góðar hingað til. Gagnrýnendur hafa sérstaklega hrósað ferskum vinkli, súrrealískum tón, dularfullri framvindu og ekki síst aðalleikurunum að ógleymdum tilvísunum í klassíska gamanþætti. Þar má til dæmis nefna I Love Lucy, The Dick van Dyke Show, Bewitched og fleiri).

Þó eru ekki sjaldséð svonefndu páskaeggin í Marvel Studios heiminum og hafa víða verið birt dæmi um slík í fyrstu tveimur þáttunum.

Hérna eru fáein stykki – og betra er að vara við mögulegum spillum fyrirfram.


Í húsi númer 2800

Samkvæmt orðrómum er talan 2800 tilvísun í ‘Earth-2800’, sem gæti undirstrikað þá hugmynd um að fjölheimar (e. multiverses) spili einhvern hluta í þessari framvindu.


„Home: It’s where you make it“

Þetta segir ef til vill meira en ýmislegt annað.


Brauðrist frá STARK Industries

Það má svo sem gera margar tengingar þarna. En gleymum ei, fjölskylda Wöndu (og bróður hennar) var sögð myrt af vöru frá Stark fyrirtækinu sjálfu.

Auk þess má nefna bút í einnig myndasögunni þar sem Wanda er æf út í spúsa sinn og líkir honum við brauðrist.


Engar tilviljanir

Í kreditlistanum á fyrsta þætti kemur fram að leikstjórinn heitir Abe Brown.

Vill svo til að Abe Brown er nafnið á persónu sem kom fyrst fram í myndinni Spider-Man: Homecoming.


Upprunalega „sófagrínið“

Bein tilvísun þarna í The Dick van Dyke Show, sem hóf þá tísku fyrst að hefja hvern þátt á sófagríni góðu og fjölbreyttu.


Í öðrum þætti er tekið skýrt skot á gamanþættina Bewitched og í þeim þriðja má sjá fáeinar vísanir í The Brady Bunch, frá opnuninni til sviðsmyndarinnar.


Rúmin tvö

Skemmtileg tilvísun þarna í hjónin Lucy og Ricky úr I Love Lucy.


Talan 23

Þessi tala getur þýtt heilan helling og ekki neitt, eins og flestir vita sem sáu hina samnefndu draslmynd með Jim Carrey. Í þessu tilfelli er þó reiknað með lúmskri tilvísun í fjölda þeirra Marvel Studios mynda sem hingað til eru komnar.

Black Widow verður sú 24. í röðinni.


Andstuttur á örlagastundu

Ekki þykir ólíklegt að atvikið með yfirmanninn eigi að svipa til stundarinnar þegar Vision sást síðast á lífi í bíómyndunum.


Kunnugleg rödd

Hermt er að rödd þessi sé í eigu Randalls Park, sem leikur FBI-fulltrúann Jimmy Woo. Hann ættu margir hverjir að þekkja úr Ant-Man and The Wasp.

Má geta þess að Park er bæði fastagestur í Marvel og DC heiminum. Hann fór með eftirminnilegt aukahlutverk í gamanþvælunni Aquaman og mun að öllum líkindum bregða fyrir í framhaldinu.


S.W.O.R.D.

Eins og má vel koma auga á eftir fyrstu þrjá þættina gegna samtökin S.W.O.R.D. (e. Sentient World Observation and Response) mikilvægu hlutverki í atburðarásinni allri.


Fjölheimur í vinnslu?

Í þriðja þætti eru Wanda og Vision á fullu að undirbúa barnaherbergið fyrir komu tvíburanna Billy og Tommy. Þegar glittir í málningardósirnar eru þær merktar „Simser“. Vill svo til að Jeremy Simser sér um söguborð (þ.e. „storyboards“) fyrir bæði WandaVision-þættina og hina væntanlegu Doctor Strange in the Multiverse of Madness. Vilja sérfræðingar meina að hvort tveggja eigi sér sterkari tengingu en fyrst blasir við.


Síðan má auðvitað ekki gleyma tengingunni sem Wanda Maximoff hefur við persónuna Wolfgang von Strücker (sem Thomas Kretchmann leikur í Age of Ultron og The Winter Soldier).