Ghostbusters – fyrsta ljósmynd

Leikstjóri nýju Draugabanamyndarinnar, Jason Reitman, deildi nú um helgina á samfélagsmiðlum fyrstu ljósmyndinni af tökustað myndarinnar, en sjá má myndina hér neðar í fréttinni.

Skottið á draugabanabílnum.

Undir myndinni stendur: „Fjölskyldan er öll hér samankomin.“

Á myndinni sést Reitman ásamt föður sínum, og leikstjóra upprunalegu Ghostbusters myndanna, Ivan Reitman, ásam Carrie Coon, Finn Wolfhard og McKenna Grace, sem öll fara með stór hlutverk í kvikmyndinni.

Gerist í litlum bæ

Kvikmyndin, sem enn er aðeins þekkt sem Ghostbusters 2020, byrjaði í tökum í síðustu viku í Calgary í Kanada. Það er í samræmi við fregnir um að myndin muni ekki gerast í stórborginni New York, heldur í minni bæ.

Það nýjasta sem heyrst hefur af söguþræðinum er að „myndin fjalli um fjölskyldu sem flytur heim í lítinn bæ, og lærir þar meira um sjálfa sig.“

Í nýlegu viðtali sagði Reitman að í myndinni verði blandað saman hryllingi og gríni, og hún verði einnig „ástarbréf til upprunalegu myndarinnar.“

Og hann bætti við í sama viðtali: „Þessi persóna kom til mín. 12 ára stúlka. Ég vissi ekki hver hún var eða afhverju henni skaut upp í kolli mínum, en hún hélt á draugabanabyssu ( e. Proton Pack ) . Og ég skrifaði handritið. Sagan þróaðist á mörgum árum í raun og veru. Hún byrjaði með þessari stelpu, og svo var komin fjölskylda. Og að lokum þá var ég sannfærður um að þetta væri kvikmynd sem ég þyrfti að gera.“

Bæði sögusagnir og staðfestar fréttir hafa verið af því undanfarið að leikarar úr upprunalegu Ghostbustersmyndinni muni snúa aftur. Sigourney Weaver sagði til dæmis í nýlegu viðtali að hún væri með, og Dan Ackroyd, Annie Potts, Ernie Hudson og Bill Murray hafa einnig gefið ádrátt um það, en lítið er staðfest enn.

Í síðasta mánuði, staðfesti Paul Rudd að hann væri í leikhópnum.

Einn upprunalegu leikarana, Harold Ramis, sem var annar handritshöfunda fyrstu tveggja myndanna ásamt Aykroyd og lék hlutverk Egon Spengler, lést árið 2014.

Leikarar í upprunalegu Ghostbusters myndunum.

Ghostbusters myndin sem frumsýnd var árið 2016, fékk blendnar viðtökur. Stiklan fyrir myndina varð sú stikla á YouTube sem fengið hefur verstar viðtökur frá upphafi.