Hrapar á Blockbusterleigu í fyrstu stiklu úr Captain Marvel

Fyrsta stiklan er komin út fyrir Marvel ofurhetjumyndina Captain Marvel, með Óskarsverðlaunaleikkonunni Brie Larson í aðalhlutverkinu.

Um er að ræða fyrstu Marvel ofurhetjukvikmyndina með kvenkyns ofurhetju. ( Ofurhetjumyndin Elektra með Jennifer Garner sem frumsýnd var árið 2005, var framleidd af Marvel Studios, áður en sá samhangandi Marvel heimur sem nú er í gangi hófst með Iron Man kvikmyndinni árið 2008.)

Í myndinni leikur Larson, sem fékk Óskarinn fyrir leik sinn í Room, hlutverk, Carol Danvers, þotuflugmanns sem fellur af himnum ofan og lendir í Blockbuster myndbandaleigu – sem einmitt bendir til að myndin gerist á tíunda áratug síðustu aldar þegar Blockbuster vídeóleigurnar voru ennþá til í Bandaríkjunum. Myndin er þá forsaga margra af Marvel kvikmyndunum sem gerðar hafa verið að undanförnu.

Danvers hefur óljósar minningar um að hafa búið á Jörðinni áður, en með dyggri aðstoð væntanlegs yfirmanns S.H.I.E.L.D., Nick Fury, sem Samuel L. Jackson leikur, og starfsmanns hans Phil Coulson, sem Clark Gregg leikur, þá öðlast hún ofurkrafta og berst gegn illum öflum undir nafninu Captain Marvel.

Í stiklunni sjáum við glitta í breska leikarann Jude Law í hlutverki Mar-Vell, sem er yfirmaður Carol í Starforce, geim-hernaðardeild sem þjálfaði hana þegar hún starfaði í geimnum.

Aðrir helstu leikarar eru Annette Bening, Djimon Hounsou, Lee Pace, Gemma Chan ( Crazy Rich Asians ) og Ben Mendelsohn (Ready Player One, Rogue One: A Star Wars Story).

Leikstjórar eru Anna Boden og Ryan Fleck.

Myndin kemur í bíó á Íslandi 8. mars á næsta ári.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: