Mega koma með heimilismat í bíó

Yfirvöld í Mharastra, öðru stærsta ríki Indlands, hafa lýst því yfir að fólk megi nú koma með mat að heiman inn í bíó í Maharashtra, en tilkynning um þetta var gefin út á dögunum. Í yfirlýsingu yfirvalda segir einnig að ef að starfsfólk bíóhúsa reyni að hindra þetta, þá muni verða gripið til aðgerða gegn viðkomandi bíóhúsi.

Þá segir í frétt af málinu að yfirvöld muni einnig beita sér gegn óhóflegri verðlagningu á mat og drykk í bíóhúsunum. Ravindra Chavan, ráðherra, gaf út yfirlýsingu þessa efnis í Nagpur. “Innanríkisráðuneytið mun ákveða innan sex vikna nýja reglugerð um bíóhús sem stunda þessa iðju,” sagði Chavan.

Nýlega úrskurðaði hæstiréttur í Bombay um þetta vandamál, að bíóhús væru að banna fólki að koma með mat inn í bíó, og í staðinn að okra á fólki inni í bíóhúsunum sjálfum. Stuttu eftir að Chavan gaf út sína tilkynningu, þá þustu tveir stjórnmálaflokkar fram á sjónarsviðið og vildu eigna sér hugmyndina.

Leiðtogi Nationalist Congress flokksins, Dhananjay Munde, sagði að þetta væri mál sem hann hefði borið upp og væri til góða fyrir almenning í Maharashtra.

Maharashtra Navnirman Sena flokkurinn, sem Raj Thackeray er í forsvari fyrir, var einnig fljótur að blanda sér í málið og reyna að eigna sér það.

Talsmaður flokksins sagði að tilkynning ráðherrans væri tákn um fullnaðarsigur MNS, enda hefðu þeir fært málið í tal fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Þá hefði flokkurinn haldið mótmæli í Pune fyrir nokkrum dögum, þar sem starfsfólk bíóhúsa var varað við að okra á fólki.

Í kjölfarið hafi eigendur bíóhúsa fundað með Raj Thackeray á heimili hans í Mumbai.

Hér má hlusta á frétt af málinu.