Stórleikkonur í streymisþjónustum

Tvær stórleikkonur eru á leiðinni á sjónvarpsskjáinn í gegnum streymisþjónustur Amazon og Netflix, Julia Roberts og Sandra Bullock.

Roberts hefur gert samning við Amazon um tvær þáttaraðir af sjónvarpsþáttunum Homecoming eftir Mr. Robot höfundinn Sam Esmail, en að auki þá hefur hún gert samning við sjónvarpsstöðina HBO, um nýja ónefnda þáttaröð.

Önnur þekkt leikkona, Isabella Rossellini, sagði í nýlegu viðtali að leikkonur á aldrinum 45 – 60 ára ættu erfitt með að fá kvikmyndahlutverk í Hollywood. Þær væru of  ungar til að vera saklausar en ekki nógu gamlar til að leika virðulegar eldri konur. Roberts, sem verður fimmtug í október, hefur ekki leikið í vinsælli mynd um nokkurt skeið, a.m.k. ekki í líkingu við þær fjölmörgu myndir hennar sem slegið hafa í gegn eins og My Best Friends Wedding, Pretty Woman og Notting Hill.

Síðasta kvikmyndahlutverk Roberts var í Money Monster. Hún fékk Óskarstilnefningu fyrir August: Osage County fyrir fjórum árum síðan. Síðasta stórmynd hennar var Erin Brockovich frá árinu 2000, en þá fékk leikkonan Óskarsverðlaunin fyrir frammistöðu sína. Síðan þá hefur hún þénað mest á leik í auglýsingum og á fasteignaviðskiptum, að því er segir á showbiz411 vefnum.

Bullock til Netflix

Önnur leikkona á svipuðum aldri, Sandra Bullock, hefur samið um leik í heimsendatryllinum Bird Box á Netflix, að því er fram kemur í Variety.

Susanne Bier leikstýrir eftir handriti Arrival höfundarins Eric Heisserer.

Myndin segir sögu af konu og tveimur börnum sem bundið er fyrir augun á og þau þurfa að rata í gegnum rústasvæði meðfram fljóti.