Erfitt hjá Harry Styles í Dunkirk

Harry Styles úr hljómsveitinni One Direction, sem fer með hlutverk í nýjustu mynd Christopher Nolan, Dunkirk, segir að það hafi verið afar krefjandi og þreytandi að leika í atriðum í myndinni, sérstaklega þegar leikið var í vatni.

Hann segir að framleiðendum myndarinnar hafi láðst að spyrja hann hvort að hann kynni ekki örugglega að synda, áður en hann var ráðinn til að leika í myndinni.

Harry ræddi þessi mál í samtali við vefsíðuna Little White Lies: „Viku áður en tökur hófust kallaði Emma [Thomas, framleiðandi ] á mig og sagði, „Heyrðu, hvernig var það aftur, ég gleymdi að spyrja … ertu syndur?“

„Það var léttir fyrir hana að heyra að ég væri syndur þar sem að það var algjör forsenda fyrir því að leika hlutverkið. En það er sama hve mikið þú æfir þig fyrir það, það að vera við tökur í vatni í klukkutíma í öllum fötunum er verulega þreytandi og krefjandi.“

Harry tjáir sig einnig um vinnubrögð Nolan sem leikstjóra: „Það er mjög erfitt að kvarta, því þú veist að hann býr yfir allri þessari reynslu, þú veist að hann stjórnar og hann verður sá síðasti til að fara.“

Auk þess að leika í myndinni hefur Harry átt annríkt upp á síðkastið við vinnu að fyrstu sólóplötu sinni.

Platan seldist meira í Bandaríkjunum á fyrstu vikunni, en plata nokkurs annars bresks tónlistarmanns, eða 230 þúsund eintök, en fyrra met átti Sam Smith með plötuna Lonely Hour, sem seldist í 166 þúsund eintökum.

Harry stytti á dögunum tónleika sína í Mexíkó eftir hryðjuverkaárásina í Manchester, og sagði áhorfendum að honum finndist ekki rétti tíminn fyrir fögnuð, og bað um einna mínútu þögn.“