10 Things I Hate About You framhald í bígerð

Leikstjórinn Gil Junger staðfesti við Variety í dag að hann sé að undirbúa framhaldsmynd unglingamyndarinnar 10 Things I Hate About You sem kom út árið 1999. Myndin er hvað þekktust fyrir að hafa gert Heath Ledger að óskaeiginmanni unglingsstelpna um allan heim þegar hún kom út.

Það sem er hvað áhugaverðast við yfirlýsingu Junger er að hann ætlar að nálgast framhaldsmyndina á alvarlegri hátt en upprunalegu myndina. Myndin mun því vera dimmari fyrir vikið og hugsanlega innihalda sjálfsmorð. Upprunalega myndin var byggð á gamanleikritinu The Taming of the Shrew eftir William Shakespeare, en Junger vildi ekki staðfesta hvert sækja ætti efnivið í framhaldsmyndina.

Þónokkrir frægir leikarar léku í 10 Things About You, m.a. Julia Stiles og Joseph Gordon-Levitt. Ekkert hefur þó verið staðfest varðandi leikaralið, handritshöfunda eða hvenær tökur eiga að hefjast. Orðið á götunni er þó að Junger sé að eltast við Hayley Atwell úr Captain America: The First Avenger (sjá mynd hér fyrir neðan).

Fyrir fólk á þrítugsaldrinum ættu þetta að vera gleðifregnir, en 10 Things I Hate About You er örugglega ein af þekktari unglingamyndum þeirrar kynslóðar, ásamt American Pie að sjálfsögðu. Ég veit samt ekki alveg hvað mér finnst um þetta, 10 Things þarf engan veginn á framhaldsmynd að halda. Ætli Heath Ledger sé ekki að snúa sér við í gröfinni akkúrat núna ?