Worthington snýr aftur í Reiði guðanna

Reiði guðanna er kannski ekki alveg nákvæm þýðing á titlinum (Reiði risanna kannski?) en það breytir því ekki að stórmyndin Wrath of the Titans er á leiðinni hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Fyrri myndin, Clash of the Titans, féll hvorki í kramið hjá gagnrýnendum eða áhorfendum þótt hún hafi skilað góðri innkomu í miðasölunni.

Leikstjóri framhaldsmyndarinnar er Jonathan Liebsman, sem er þekktur fyrir hágæðamyndir á borð við Darkness Falls og Battle: Los Angeles.

Með aðalhlutverk í Wrath of the Titans fara Sam Worthington, Liam Neeson, Rosamund Pike og Toby Kebbel.

Hér er fyrsta ljósmyndin úr myndinni, sem var frumsýnd í Entertainment Weekly. Hún sýnir svosem ekki mikið, en hafið það í huga að þessi mynd mun gerast 10 árum eftir atburði síðustu myndar. Sennilega útskýrir það hárið á Worthington.