Vinsælast á Netflix á Íslandi: Sorg, keppnisandi og byssur Baltasars

Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix heldur stöðugum dampi og virðist vera nóg af framboði efnis sem hentar hverjum og einum. Eins og flestir vita birtir veitan lista yfir vinsælustu titla í hverju landi.

1. Dead to Me

Christina Applegate, Linda Cardellini og James Marsden fara með helstu hlutverkin í þessum þáttum, en nýlega var frumsýnd önnur þáttaröð við fínar viðtökur og gífurlegt áhorf. Dead to Me segir í grunninn frá ekkju í leit að ökufantinum sem varð eiginmanni hennar að bana. Hún vingast þá við bjartsýnan sérvitring en hann er þó ekki allur sem hann er séður.

2. The Last Dance

Heimildarþættirnir The Last Dance fjalla um körfuboltalið Chicago Bulls á tímabilinu 1997-98, þegar liðið vann þriðja meistaratitilinn í röð. Þetta var sjötti meistaratitill liðsins á átta árum og síðasta tímabil Michael Jordan í treyju Chicago Bulls. Þættirnir voru frumsýndir í seinnihluta apríl og hlotið afar góða dóma, með áherslu á það að viðkomandi þarf ekki að vera körfuboltaunnandi til að festast í þeim.

3. RuPaul’s Drag Race

„Ef þú elskar ekki sjálfan þig, hvernig ætlarðu að fara að því að elska einhvern annan?“ spyr skemmtikrafturinn RuPaul í lok hvers þáttar, en keppnisþættir dragdrottningarinnar hafa vel verið á rjúkandi góðri siglingu og hafa landsmenn fylgst ólmir með tólftu þáttaröðinni og framvindu hennar. Skemmst er að segja frá því að þetta er stórskemmtilegt raunveruleikasjónvarp – og dramað er vægast sagt ávanabindandi og uppfullt af eftirminnilegum keppendum.

4. Rick and Morty

Glænýr og funheitur Rick and Morty þáttur rataði á Netflix á dögunum og fóru þá tölur þáttanna að sjálfsögðu að rjúka upp. Búast má við næsta þætti þann 17. maí.

5. New Girl

New Girl-þáttaröðin var frumsýnd árið 2011 og hefur notið mikillar velgengni vestanhafs og þótt víðar væri leitað. Þáttaraðirnar sjö eru allar aðgengilegar á Netflix og er ljóst að ýmsir hafa rifjað upp kynnin við hressindin.


…og þetta eru 5 vinsælustu kvikmyndirnar á Netflix.

1. The Dark Tower

The Dark Tower er byggð á stórvinsælli seríu Stephens King og þó kvikmyndin hafi fengið afleitar viðtökur á sínum tíma eru áhorfstölur Íslendinga búnar að vera sterkar síðustu daga. Segir kvikmyndin frá leit síðasta „byssumannsins“ Rolands Deschain að „Myrka turninum“ en það hugtak lýsir bæði raunverulegum turni og er jafnframt myndlíking, en turninn er ekki bara bygging heldur einnig hjartað og miðjan í þeirri veröld (eða veröldum) sem sagan gerist í. Falli þessi turn, falla allar veraldir að okkar veröld meðtalinni, og það er einmitt það sem byssumaðurinn vill koma í veg fyrir. Til þess þarf hann að tortíma „manninum í svörtu“ sem leitar einnig Myrka turnsins til að eyðileggja hann svo hið illa (eða dauðinn) öðlist öll völd til eilífðar

2. Extraction

Stórmynd úr smiðju Netflix sem er skrifuð af öðrum helmingi Russo-bræðranna (The Winter Soldier, Infinity War, Endgame) með Chris Hemsworth í aðalhlutverki. Extraction hefur náð gífurlegum áhorfstölum um allan heim og er um að ræða taumlausa hasarmynd um málaliðann Tyler Rake. Dag einn er hann ráðinn í sína hættulegustu ferð til þessa, þar sem verkefni hans er að bjarga syni alþjóðlegs glæpaforingja, sem situr í fangelsi, sem hefur verið rænt. Hasarunnendur ættu að öllum líkindum ekki að verða fyrir vonbrigðum.

3. 2 Guns

Ein af stærri Hollywood-kvikmyndum Baltasars Kormáks, 2 Guns frá 2013, hefur trekkt upp fínar tölur í vikunni en myndin fjallar um eiturlyfjalögreglumann og mann úr leyniþjónustu sjóhersins sem fá það verkefni að rannsaka hvorn annan. Þeir komast síðan að því að mafían stendur á bakvið málið allt – sem er einmitt aðilinn ( þ.e. mafían ) sem báðir menn telja sig hafa verið að stela pening af.

4. The Willoughbys

Gamansöm og sprellfjörug teiknimynd sem fjallar um börn sem þrá að losna við leiðinlega og áhugalausa foreldra sína og ala sig upp sjálf. Þau Rick Gervais, Terry Crewes, Maya Rudolph og Martin Short ljá persónum raddir sínar í myndinni, sem mælt er með fyrir alla fjölskylduna.

5. Dangerous Lies

Leikkonan Camilla Mendes (sem margir ættu að þekkja úr Riverdale) fer með aðalhlutverkið í spennutrylli sem segir frá ummönnunaraðila sem flækist í hættulegan lygavef í kjölfar þess að erfa setur foreldra sinna. Með önnur hlutverk fara Jesse T. Usher, Cam Gigandet, Jamie Chung og Elliot Gould.

Stikk: