Tvö ár enn sem Iron Man

Robert Downey Jr., 51 árs, er að spá í að setja ofurhetjubúninginn upp í hillu eftir tvö ár, en leikarinn hefur nú leikið ofurhetjuna Iron Man síðastliðin átta ár, eða frá því þegar fyrsta myndin var frumsýnd.

Robert segir frá þessu í samtali við breska blaðið Daily Star, og bætir við að hann sé spenntur fyrir því að gera Iron Man 4, sem yrði þá svanasöngur hans í hlutverkinu.

Eftir Iron Man 1 lék hann ofurhetjuna í tveimur framhaldsmyndum, Iron Man 2 og Iron Man 3, auk þess að leika hana í The Incredible Hulk og báðum Avengers myndunum, The Avengers, og The Avengers: Age of Ultron. Nú síðast lék hann Iron Man í Captain America: Civil War, sem heimsfrumsýnd var hér á landi nú um helgina.

iron-man-508532
Downey Jr. hefur nú þegar samið um að leika Iron Man, öðru nafni milljarðamæringinn og glaumgosann Tony Stark, í þremur myndum til viðbótar; næstu tveimur Avengers myndum og Spider-Man: Homecoming.

Downey Jr. var í Bretlandi fyrir helgi, en hann og aðrir leikarar myndarinnar, m.a. þeir Paul Rudd, 47 ára,  og Jeremy Renner, 45 ára, eru á þeysireið um Evrópu til að kynna myndina, sem frumsýnd var viku fyrr í Evrópu en í Bandaríkjunum.