True Detective ekki dauð

Fyrsta þáttaröð sakamálaseríunnar True Detective á sjónvarpsstöðinni HBO, með þeim Matthew McConaughey og Woody Harrelson í aðalhlutverkum, sló í gegn sumarið 2014, bæði hjá gagnrýnendum og áhorfendum. Önnur þáttaröð, með þeim Vince Vaughn, Colin Farrell og Rachel McAdams í aðalhlutverkum, fékk ekki eins góðar viðtökur. Margir hafa velt fyrir sér hvort að ráðist verði í gerð þriðju þáttaraðar, og nýjar fregnir frá HBO herma að svo gæti allt eins farið.

true detective

Dagskrárstjóri stöðvarinnar, Casey Bloys, ræddi þetta mál á blaðamannafundi nú um helgina, og sagði að enn væri líf í þáttaröðinni. “Hún er ekki dauð,” sagði Bloys við blaðamenn. “Ég talaði við [höfundinn] Nic [Pizzolato] um þetta. Bæði Nic og HBO vonast eftir því að hægt verði að gera þriðju þáttaröðina. Ég held samt að Nic sé ekki með útspil fyrir hana að sinni. Hann er að vinna að öðrum verkefnum,” hélt hann áfram. “Við erum opin fyrir því að einhverjir aðrir skrifi handritið, en Nic hafi yfirumsjón með skrifunum.”

Fyrsta þáttaröðin fékk fjórar Golden Globe tilnefningar og vann fimm Emmy verðlaun.