Rýnt í leikstjóra: Woody Allen

Tvennt virðist einkenna viðhorf fólks til kvikmynda eftir leikstjóran Woody Allen.  Annað hvort elskar fólk kvikmyndirnar hans eða hreinlega þolir þær ekki.

Woody Allen hefur skrifað og leikstýrt að meðaltali einni kvikmynd á ári síðan hann byrjaði að skrifa kvikmyndahandrit árið 1965.  Fyrsta kvikmyndahandrit hans varð að kvikmyndinni What‘s New Pussycat? árið 1965 en hann var óánægður með útkomuna þar sem hann leikstýrði henni ekki sjálfur en honum fannst leikstýrendurnir ótrúir kvikmyndahandritinu.  Eftir þá reynslu ákvað hann að í framhaldinu myndi hann leikstýra öllum sínum kvikmyndum sjálfur og var sú fyrsta kvikmyndin Whats Up, Tiger Lily? árið 1966.

Nýjustu myndir Allen eru þær To Rome With Love (2012) og Midnight in Paris (2011) en þær eru svipaðar í útliti og söguþræði.  Í hinni fyrrnefndu, To Rome With Love, samtvinnast fjórar sögur sem tengjast í gegnum hina sögufrægu Róm, en í henni eru sagðar sögurnar af presti sem hlýtur skyndilega óverðskuldaða frægð, arkitekt sem ferðast á æskuslóðir, ungt par í brúðkaupsferð og útfararstjóra sem býr yfir þeim einstaka hæfileika að syngja dásamlega fallegar óperur í sturtunni.  Midnight in Paris fjallar hins vegar um kvikmyndahandritshöfund sem óskar sér frekar að vera skáldsagnarithöfundur og unnustu hans sem ferðast saman til Parísar.  Í gegnum myndina ferðast aðalpersónan aftur í tímann og hittir sögufrægar persónur og áttar sig í kjölfarið á því að hann þurfi að takast á við sambandsvandamál sín og unnustu sinnar ef hann á að verða hamingjusamur.

Bæði To Rome With Love og Midnight in Paris fjalla um vandamál  í ástarsamböndum og gerast í stórborgum, sem eru tvö sameiginleg þemu sem einkenna flestar kvikmyndir Allens.  Þessar tvær nýjustu kvikmyndir Allen eru þó frábrugðnar öðrum kvikmyndum hans á þann hátt að þær gerast í stórborgum Evrópu en oftast hefur hann fjallað um líf New York búa þar sem hann á það til að leika sjálfur aðalhlutverk sem taugaveiklaður New York búi.

Woody Allen er oft heimspekilegur í kvikmyndum sínum en þær heimspekilegu pælingar sem hann tekur meðal annars fyrir eru óttinn við dauðann og tilgangsleysi lífsins, eða frekara sagt tilganglaus tilgangsleit manneskjunnar.  Þá nefnir hann í myndum sínum að hann hafi mjög ungur áttað sig á því að einn daginn myndi allt þetta enda, líf sitt og hvað þá líf allra manna og í framhaldinu spyr sjálfan sig og alla aðra í kring til hvers allt sé ef allt er til einskis – með tilheyrandi töktum taugaveiklaðs einstaklings.  Mörgum finnst þessi einstaklingur sem veltir fyrir sér stórum og alvarlegum spurningum sem þessum einstaklega kómískur.  Aðrir sjá hann sem pirrandi stresshrúgu sem getur ekki haft stjórn á sér og líkar ekki við.

Ein persónuleg tilvitnun eftir Allen hljóðar svona: „ég vil ekki ná ódauðleika í gegnum vinnuna mína.  Ég vil ná honum með því að ekki deyja“ og á það til að grínast með dauðann og hræðslu sína við hann.  Þessa hræðslu má tengja við þann karakter sem Allen skapaði sér en auk hræðslunnar við dauðann viðurkennir Allen að hann hræðist köngulær, skordýr, sólskin, hunda, mannmergð, krabbamein, sýkla, hótelbaðherbergi og er lofthræddur.

Ásamt því að kvikmyndir Allen innihaldi heimspeki fjalla þær flestar um ástina og vandamál hennar.  Oftast er um að ræða ástarsamband þar sem í framhaldinu koma upp ástarvandamál og flækjur.  Þá má stöku sinnum finna framhjáhald í myndum hans og þegar það á við virðist það vera framsett á þann hátt að í samböndum sé eitthvað sem á ákveðnum tímapunkti nauðsynlega deyji og að eðlilegt og nánast óumflýjanlegt framhald þess sé framhjáhald.  Auk þess séu vandamálin sem framhjáhaldinu fylgja eðlilegur, óumflýjanlegur og yfirstíganlegur hluti raunveruleikans.  Hugsanlega gæti þessi sýn á ástina tengst því hvernig ástarlíf Allens sjálfs hefur verið en hann fór meðal annars frá fyrrverandi konu sinni, Mia Farrow, til þess að vera með 17 ára ættleiddri dóttur hennar en þau höfðu átt í ástarsambandi.

Í gegnum kvikmyndir sínar kemur Woody Allen fram sem heimspekilegur og taugaveiklaður ástarfíkill sem fjallar um líf, vandamál og ástir fólks og virðist fólk almennt skiptast í tvær fylkingar varðandi myndirnar hans –  það einfaldlega dýrkar hann eða þolir hann ekki.

Ef fólk hefur áhuga á að kynnast kvikmyndum Allens mælum við með:

To Rome With Love (2012)
Midnight in Paris (2011)
You Will Meet a Tall Dark Stranger (2010)
Whatever Works (2009)
Vicky Christina Barcelona (2008)
Scoop (2006)
Match Point (2005)
Deconstructing Harry (1997)
Crimes and Misdemeanors (1989)
Manhattan (1979)
Annie Hall (1977)

ásamt stuttmynd Allens í kvikmyndinni New York Stories (1989) þar sem saman koma þrjár sögur, hvor þáttur um sig leikstýrður af Woody Allen, Francis Ford Coppola og Martin Scorsese.

Nýjasta mynd Allen heitir Blue Jasmine og er væntanleg á þessu ári.  Hér má sjá brot úr myndinni: