Riddick komin aftur í gang

Eftir mörg ár af því að tala upp verkefnið hófu leikstjórinn David Twohy og Vin Diesel tökur á ástríðuverkefni sínu, þriðju Riddick myndinni, seint í sumar. Þetta gátu þeir sennilega loksins gert vegna endurupprisu Diesels á stjörnukortið með einum óvæntasta stórsmelli ársins, Fast Five. Ætlunin var að gera þriðju myndina fyrir lítinn pening, og yrði hún lágstemmd sci-fi hryllingsmynd líkari fyrstu myndinni (Pitch Black) heldur en þeirri annarri (The Chronicles of Riddick) sem þótti útþynnt, hávær og rándýr – og gekk alveg hrikalega í miðasölunni. Amerísku kvikmyndaverin höfðu því ekki viljað snerta við þriðju myndinni, en með auknum áhrifum Diesels komst hún í gang.

Reikningsdæmið gekk þó greinilega ekki alveg upp, því fyrir um mánuði bárust fregnir af því að tökuver í Montreal í Kanada hefði úthýst framleiðslunni þar sem eigandi þess hefði ekki fengið leigu borgaða í langan tíma – og svipaðar kvartanir bárust frá sumu starfsfólki myndarinnar. Nú virðast þeir Twohy og Diesel sem betur fer hafa leyst úr þeim vanda, og tökur eiga nú að halda áfram strax eftir jól.

Myndin er einfaldlega sögð eiga að heita Riddick (getur þó breyst), og búist er við því að ásamt Diesel snúi Karl Urban aftur, en hann lék erkióvin Riddicks annarri myndinni. Sagan hljómar eitthvað á þá leið að Riddick er svikinn af eiginn mönnum og skilinn eftir til að deyja á eyðiplánetu. Ásamt því að þurfa að berjast við hættulegar rán-geimverur til að lifa af koma fljótlega hausaveiðarar að leita að honum, og til að toppa það þarf Riddick að bjarga heimaplánetu sinni, Furya, úr bráðri hættu.

Á facebook síðu Diesel’s þar sem hann er duglegur að senda ástarkveðjur og glaðninga til aðdáenda sinna birtist fyrir stuttu þetta listaverk úr myndinni. Gæti þessi þriðja mynd ekki bætt ágætlega fyrir þá aðra?