Óheppilegt heiti á mynd Fonda og Redford

Stórleikararnir Jane Fonda og Robert Redford leika í nýrri mynd sem er í bíó í Bandaríkjunum, en um er að ræða hjartnæmt táradrama, fyrir markhópinn 65 ára og eldri.


Heiti myndarinnar, Our Souls at Night, hefur heitan, hlýjan og ljóðrænan hljóm, og gefur til kynna umfjöllunarefnið; um tvo einstaklinga sem hafa misst maka sína, en finna ástina á nýjan leik.
Eini vandinn við þetta er sá að hægt er að misskilja titilinn illilega ef hann er borinn fram með ekta enskum hreim.

Í raun má segja að þá hljómi heitið allt annað en ljóðrænt, svo ekki sé dýpra í árina tekið. Prófaðu að segja titilinn og bera „our“ fram sem „ar“ eins og rétt er að gera á Bretlandi.

Og fólk er þegar byrjað að vekja athygli á þessu á Twitter. Enski leikarinn Rufus Sewell birti mynd af auglýsingaskilti fyrir myndina og skrifaði undir: „Kannski þetta hljómi fjölskylduvænna ef notaður er bandarískur framburður,“ og í kjölfarið fylgdi hrina af skemmtilegum viðbrögðum.