Nýtt Ósiðlegt tilboð á leiðinni

Endurgerð kynlífs-drama kvikmyndarinnar Indecent Proposal er nú á leiðinni, en handritshöfundur er sá sami og gerði handritið að Emily Blunt tryllinum The Girl on the Train, Erin Cressida Wilson. Wilson vinnur nú að handriti leikinnar myndar Disney um Mjallhvíti og dvergana sjö.

Enn er ekkert vitað hverjir gætu mögulega farið með aðalhlutverkin í myndinni.

Í upprunalegu myndinni slógust þeir Robert Redford og Woody Harrelson um ástir Demi Moore. Redford var auðugur athafnamaður, sem gerir þeim Harrelson og Moore, sem höfðu verið par síðan í menntaskóla, tilboð sem þau geta ekki hafnað, í kjölfar þess að þau tapa öllum peningunum sínum í spilavíti í Las Vegas. Tilboðið hljóðar upp á að athafnamaðurinn greiði eina milljón bandaríkjadala fyrir eina nótt með eiginkonunni ungu.

Í skáldsögunni sem kvikmyndin var byggð á, og er eftir Jack Engelhard, þá gerir arabískur athafnamaður ungum Gyðingi tilboð, og líklega má búast við einhverri nýrri útfærslu sögunnar í nýju myndinni.

Leikstjóri upphaflegu myndarinnar var Adrian Lyne, sem einnig leikstýrði tveimur öðrum gríðarlega vinsældum kynlífstengdum tryllum, Fatal Attraction og 9 ½ Weeks.  Indecent Proposal var frumsýnd árið 1993.

Myndin sló í gegn, og tekjur hennar námu 266 milljónum dala, en kostnaður var aðeins 38 milljónir.

Gagnrýnendur tóku myndinni þó ekki eins vel, og myndin endaði með að fá þrjú verðlaun á Gullnu hindberjahátíðinni, sem verðlaunar árlega það versta sem gert er í Hollywood. Myndin fékk Gullna hindberið fyrir verstu kvikmynd ársins, versta meðleikara, Woody Harrelson, og versta handrit.