Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Litla lirfan ljóta
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gaman, gaman! Við Íslendingar höfum eignast okkar eigin teiknimynd.

Ekta teiknimynd með elskulegri aðalpersónu sem bæði grætur og hlær rétt eins og við og sem býr í íslenskum garði hjá íslensku bárujárnshúsi í mjúkri bugðu við íslensk fjöll og íslenska á. Krílið litla er græn lirfa sem þarf að vaxa og dafna og ná þroska án þess að nokkrir ástkærir foreldrar komi við sögu Hún skríður ein út í lífið og er, sem skilja má, sakleysið uppmálað. Guði sé lof, verður á vegi hennar ánámaðkur sem er vitur og góður uppalandi en mörgum sjálfumglöðum erfiðum spjátrungum kynnist hún einnig. Sumir eru verri en það. Þeir fórna öllu fyrir einkahagsmuni sína og hugsa ekkert um hvað það kann að kosta aðra sem vilja lifa. En í myndinni kemur líka ástin við sögu og rétt undir lokin gleðst hjartað yfir rauðu fögru fiðrildi sem er með ansi kunnuglegt andlitsfall.

Teiknimyndahöfundurinn Gunnar Karlson hefur í þessari hálftíma mynd leitt okkur inn í heim sem unun er að kynnast. Hver og einn getur ímyndað sér hversu mikil vinna liggur að baki svona smáu atriði eins og þegar púpann dettur niður úr hreiðrinu og vindst út úr þræðinum sem unmlykur hana. Í handritinu, sem er einkar eðlilegt í öllum tilsvörum og prýðilega samið af Friðriki Erlingssyni, gæti hafa staðið “og svo datt hún niður“. Sé aðeins eitt slíkt atriði grant skoðað má gera sér í hugarlund hversu margir vinnutímar hafi farið í að teikna það.

Gaman, gaman! Teiknarinn er íslenskur, höfundur sögunnar íslenskur og fæðingarlæknirinn sem kom myndinni á markað er íslenskur. Var einhver sem sagði að við gætum ekki það sem við viljum - ha ?



Solveig Jónsdóttir

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei