Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Die Another Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er engin spurning að þetta er langbesta Pierce Brosnan myndin til þessa. Ekki nóg með að við fáum að sjá algjörlega nýja hlið á Bond (a.m.k. Brosnan-bond) í upphafi myndarinnar, heldur er heldur betur búið að kippa því í liðinn sem hefur aðallega farið í taugarnar á mér við myndirnar hans til þessa - one-liner brandararnir hafa yfirleitt verið alveg hræðilegir. Í þessari mynd er þeim alls ekki sleppt - þeir eru bara miklu betur skrifaðir. Flestir hafa reyndar kynferðislegan undirtón, svo mikið að stundum liggur við að manni finnist það of mikið. Eins og t.d. ein af fjölmörgum skemmtilegum línum sem Bond segir við ungfrú Frost - Can I expect the pleasure of you in Iceland?


Sambandið á milli Halle Berry (Jinx) og Brosnan (Bond) er mjög vel útfært - og kemur miklu betur út en sýnishornin úr myndinni höfðu gefið til kynna.


Það er skemmtilegt hvað leikstjórarnir (og líklega aðstoðarmenn þeirra hjá Saga Film) hafa lagt í ótrúleg smáatriði varðandi Íslandsatriðin (sem er reyndar miklu stærri partur af myndinni en ég hafði haldið fyrirfram).

Græni, vopnum hlaðni Jagúar-inn sem ég var búinn að sjá myndir af í Mogganum þegar þeir voru að taka þessi atriði - hann er með íslenskt númer! OR 203. Eins og það sé ekki nóg þá er hann með Reykjavíkur-límmiða fremst!


Ég sé alveg eigandann fyrir mér koma með bílinn inn í Bifreiðaskoðun Íslands og fá skoðun á allar vélbyssurnar og svona.


Svo ég tali ekki um að íslenskri tollskoðun hefur greinilega förlast ef menn komast inn með heilt vopnabúr til landsins.


Þegar fólk fer í bíó og sér þessa frægu íshöll sem mikið hefur verið talað um í auglýsingum - skrifið þá endilega hér og segið mér hvort þið eruð sammála því að Kópavogskirkja hafi verið notuð sem fyrirmynd fyrir þessa íshöll. Mér finnst grunsamlegt hvað byggingarnar tvær eru líkar (að utan).


En þó að Íslandsatriðin séu náttúrulega alltaf skemmtileg fyrir okkur þá er myndin semsagt í heild hin besta skemmtun, tæki og tól, sprengingar og læti, myndarlegur Bond, fallegt kvenfólk, flott tónlist (skemmtileg S-Amerísk útsetning af stefinu fræga - ég held ég hafi ekki heyrt það áður), brandarar sem virka og allt annað sem prýða má góða mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
S1m0ne
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég sá þessa mynd fyrir nokkrum vikum og fannst hún ansi hreint sniðug bara. Það sem mér finnst einna skemmtilegast við myndina er að hún tekur á máli sem Forrest Gump startaði - á sá tími eftir að koma að það þarf ekki alvöru leikara í bíómyndir? Eða verður hægt að endurnýta Marilyn Monroe og Bing Crosby? Ég hvet þá sem fara á myndina til að sitja aðeins yfir kreditlistanum og athuga hver leikur S1M0NE sjálfa. Vekur upp ýmsar spurningar. Ég veit heldur ekki hvort það er bara ég eða hvort téð S1M0NE er svoldið lík henni Elvu Dögg okkar.


Það er reyndar eitt fyrirbæri sérstaklega í sambandi við þessa mynd sem gerir hana nett heimskulega - og það er sjálfur tölvubúnaðurinn sem leikstjórinn notar til að búa til heilu bíómyndirnar. Og svo ég tali ekki um diskettuna mikilvægu sem kemur fram í myndinni. Hvað er langt síðan var hætt að framleiða 5'1/4 diskettudrif? 15 ár?


Mér fannst þetta samt eins og áður segir ágæt mynd og mér fannst gaman að sjá Al Pacino í talsvert öðruvísi hlutverki en ég hef vanist honum í. Leiðist hann semsagt yfirleitt en fannst hann fínn hér.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Beauty and the Beast
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Í tilefni af skrifum hér fyrir ofan finnst mér ekkert úr vegi að benda á að Felix leikur einmitt ekkert í þessarri mynd, enda hefur hún ekkert svona týpískt tenór-prinshlutverk, sem Felix passar einmitt svo vel í (sem er að sjálfsögðu ástæðan fyrir því að þeir hjá Disney hafa oftar en einu sinni valið hann í þau hlutverk).


Í þessari talsetningu leika meðal annars eftirfarandi:

Fríða: Selma Björnsdóttir

Dýrið: Hinrik Ólafsson

Gaston/Gestur: Bragi Þór Valsson

Lafou/Leifur: Valur Freyr (held ég örugglega)

Kertastjakinn: Karl Ágúst Úlfsson


og fleiri. Semsagt aðeins öðruvísi cast en kannski venjulega, og það sem ég hef heyrt úr myndinni er bara fantagott.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei