Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Kurteist fólk
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Svona eins og lífið
Ég fann mig knúinn til að skrá mig á þessa síðu til að skrifa umfjöllun um myndina eftir að hafa séð hana fá óverðskuldaða útreið í annarri gagnrýni.

Kurteist fólk er í kjarnann sagan um lífið. Það gerist oft ekkert mikið í lífinu heldur drögumst við áfram í gegnum ruglið sem það bíður upp á og reynum eftir bestu getu að komast út úr atvikum og upplifunum sem betri einstaklingar.

Í gegnum kvikmyndina fylgjumst við með Lárusi sem er leikinn af Stefáni Karli þar sem hann tekst á við lífið og pólitíkina út á landi. Ég verð að taka sérstaklega ofan af fyrir Stefáni Karli þar sem hann er í raun "Larger than life" leikari sem leikur með öllum líkamanum en Ólafi leikstjóra tekst að skapa persónu sem hefur tapað öllu, persónu sem ólgar að innan en getur ekki hleypt því út.

Einna áhugaverðast við kvikmyndina er hve raunveruleg íslensku notkunin er í myndinni ólíkt því sem svo oft hefur verið í íslenskum kvikmyndum þar sem allir segja setningarnar fullkomlega skýrt og bíða eftir að hinn aðilinn klári að tala.

Þó nokkrir vankantar séu á handritinu þá hafa handritshöfundar skilað því mjög vel frá sér, einna helsta vandamálið er þó ris myndarinnar sem nær ekki að verða nógu mikið í kringum síðari helming myndarinnar til að skapa kvikmyndalega upplifun sem hinn almenni áhorfandi leitar eftir.

Endurlitin í kvikmyndina gefa góða mynd af því erfiða lífi sem Lárus ólst upp við og þeirri miklu andúð sem það hefur fært honum á foreldra hans.

Mér fannst einnig áhugavert að heyra í vini mínum, sem er utan af landi tala um hve "spot on" Hilmir Snær hefði verið með upphafningu sjálfsins í gegnum það "mikilvæga" hlutverk sem mjólkurbússtjórinn er.

Því það skiptir ekki máli á hvaða samfélagi eða samfélagslegum aðstæðum einstaklingar eru það eru alltaf einhverjir sem reyna að upphefja sig í gegnum stöðu eða aðstæður til að viðhalda félagslegu valdi.

Kurteist fólk dregur einmitt mjög áhugaverða "micro" mynd af þjóðfélaginu sem við búum í, þar sem allir eru að reyna að koma sjálfum sér til framdráttar í gegnum vensl með brellum og klækjum. Þar sem hið félagslega net er undirstaða alls.

Kurteist fólk er þó ekki kannski fyrir alla heldur fellur á milli "mainstream" og "art house" kvikmynda og tel ég að það hjálpi ef fólk hefur búið út á landi.
Markhópurinn fyrir þessa mynd er eflaust 25 og yfir þar sem hún fjallar um vandamálin í lífinu en leitast ekki eftir að vera innantóm skemmtun.

ég gef henni 7/10 því hún hafði uppá eitthvað meira að bjóða en margar evrópskar kvikmyndir sem takast á við svipuð efni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei