Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Someone Like You...
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þar sem eingöngu strákar hafa skrifað þessa mynd, þá held ég að það sé kominn tími á að verja hana aðeins. Jane verður yfir sig ástfangin af Ray og fyrstu vikurnar eru sæluvíma. Svo þegar hún hefur rétt svo sagt upp íbúðinni sinni til að flytja inn með honum, þá segist hann vera aftur byrjaður með sinni gömlu kærustu. Þetta er grundvöllur þess sem á eftir kemur. Til að reyna að krafsa sig út úr gríðarlegri vanlíðan sem fylgir í kjölfarið á þessum hræðilegu svikum, oj bara, þá setur Jane fram alveg fáránlega kenningu um karlmenn. Ef hún getur gert þá alla að skrímslum, þá er það ekki hún sem er misheppnuð, ekki hún sem er hafnað, heldur karlmenn sem eru gallaðir. Sorrý strákar, en þessa taktík nota mjög margar (en ekki allar) konur til að komast í gegnum fyrstu og þyngstu stigin af ástarsorg. Hér er það tekið skrefinu lengra, reyndar, og íkt til að skapa gamanmynd. Kenningin er kjánaleg, en virkar eins og nýju fötin keisarans, sem er alltaf fyndin og nauðsynleg saga við og við. Jane sumsé þykist vera einhver voða menntaður sálfræðingur og kenningin verður aðalumræðuefnið í öllum kjaftaþáttum og allt þetta wannabe lið þykist trúa henni.

Eddie hefur líka lent í særindum, en tekst á við það með því að stunda mikið af skyndikynnum, eitthvað sem sumir (alls ekki allir) strákar gera til að komast í gegnum ástarsorg.

Jane fær að leigja hjá honum herbergi þegar hún missir íbúðina og hver vill giska á hvað gerist? Fyrirgefiði strákar, en mér fannst augljóst hvernig myndin myndi enda um það bil allan tímann. Engin þruma úr heiðskíru lofti hér.

Sumsé, fyrir stelpur er þessi yfir meðallagi og Hugh Jackman er næg ástæða til að sjá hana ;) Strákar þurfa að passa sig að móðgast ekki, ef þeir ákveða að gefa henni séns. Keisarinn er allsber.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Pianist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég ætla ekki að endurtaka þá góðu rýni sem hér er að ofan, enda held ég sammála flestu þar. Mig langar bara að bæta við einu. Mér fannst ótrúlega smekklegt hvernig sýnt var frá hörmungum gettósins. Týpísk amerísk helfarar-mynd myndi drekkja áhorfendum í yfirdrifnum vasaklúta-hörmungarsenum. Romanski gerir það alls ekki. Hann sýnir manni átakanlega atburði á mjög smekklegan en um leið áhrifaríkan hátt. Myndin tekur á, svo sannarlega, en því er ekki ofgert. Það er ekki verið að misnota tilfinningar áhorfanda hér, heldur er sagt frá á hreinskilinn og eitthvað svo heiðarlegan hátt; enginn áróður, bara sannleikur. Svo fólk sem er komið með algjört ógeð á helfararmyndum ætti samt að þola að sjá þessa. Það er vel þess virði, hún er svo frábærlega vel gerð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Importance of Being Earnest
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Importance of being Earnest er byggð á leikriti eftir Oscar Wilde sem á íslensku kallast Hreinn umfram allt. Myndin er gerð af sömu aðilum og stóðu að myndinni An Ideal Husband (einnig byggðri á Wilde - leikriti) fyrir ekki svo löngu síðan. Í þeirri mynd lék Rupert Everett líka, en auk hans voru þar Cate Blanchett, Julianne Moore, Minnie Driver og fleiri ansi góðir leikarar. Leikstjórinn er einnig sá sami. Í raun má bara setja þessar tvær myndir saman í pakka, þær eru nokkurs konar systurmyndir, og er óhætt að mæla með þessari nýju fyrir þá sem kunnu að meta þá fyrri. Auk þess þurfa að sjálfsögðu allir Wilde aðdáendur að sjá hana. Til að lýsa myndinni fyrir aðra, er hér á ferðinni ákaflega létt og leikandi gamanmynd sem byggir á misskilningi, tvískinnungi, ástarflækjum og mistaken identities. Wilde er alger snillingur í svona löguðu, og þeir sem ekki þekkja leikritið ættu að skemmta sér betur en t.d. ég sem þekkti allar flækjurnar fyrirfram. Það er ferlega fyndið að sjá þetta í fyrsta sinn.

Aðeins um söguþráð fyrir þá sem það vilja:

John (eða eitthvað man ekki hvað hann hét - allavega Colin Firth (Pride&Prejudice, Bridget Jones, Fever Pitch) leikur hann), er fyrirmyndarmaður á sveitarsetri sínu þar sem skjólstæðingur hans (leikin af Reese Witherspoon) hefst við og lætur sig dreyma um litríkari tilveru. Hann segist hins vegar eiga bróðurinn Earnest sem er alltaf komast í vandræði í Lundúnaborg, og þarf alltaf að vera að fara til Lundúna til að borga skuldir hans og skikka hann til. Þegar hins vegar John kemur til borgarinnar kallar hann sig sjálfur Earnest (sumsé enginn bróðir) og lifir töluvert öðru lífi. Þegar svo vinur hans Algy (Rupert Everett), eltir hann í sveitina, þá fara hlutirnir heldur betur að gerast.

Þetta er alls ekki mynd sem ristir djúpt, eða skilur neitt eftir sig, heldur ágæt og létt afþreying, með frábærum leik úrvalsleikara í flestum stöðum (Judi Dench er að sjálfsögðu snillingur).
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kissing Jessica Stein
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mig langar að mæla með þessari. Ég bara gat ekki hætt að brosa þegar ég kom út af henni. Loksins kemur gáfuleg rómantísk gamanmynd.

Jessica Stein er alveg óborganleg persóna. Hún þjáist af fullkomnunaráráttu, og hefur þess vegna átt mjög erfitt með að finna karlmann sér við hæfi. Svo þegar vinkona hennar les upp einkamálaauglýsingu með tilvitnun í uppáhalds bókina hennar, lyftist á henni brúnin, þangað til þær sjá að auglýsingin tilheyrir Konur í leit að konum flokknum. En svo verður Jessica svo örvæntingafull, að þrátt fyrir að hafa fordóma í garð samkynhneigðra, og bara allra sem eru öðruvísi (t.d. þeirra sem stunda jóga), þá skellir hún sér á stefnumót við konuna sem vitnaði í uppáhalds bókina hennar. Og viti menn, þær smella svona ferlega vel saman. Svo fáum við að fylgjast með Jessicu kljást við fordómana sína, og það er alveg dásamlega fyndið.

Þetta er sumsé yndisleg, fyndin og sæt New York mynd með gáfulegan New York húmor og lifandi og skemmtilegum persónum.


Smá viðvörun: Það sat gamalt fólk við hliðina á mér í bíó og þeim fannst myndin alveg hræðileg. Það eru ekki allir sem fíla svona New York húmor. Ég hef líka heyrt endann á myndinni gagnrýndann, að þær flækjur sem orðið hafi til leysist of auðveldlega. Það má vera, en hér er engu að síður komin með betri rómantískum gamanmyndum í langan tíma.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Count of Monte Cristo
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég vil taka það fram að ég þekki söguna um Greifann af Monte Cristo. Bæði hef ég séð gömlu myndina með Richard Chamberlain og þættina með Gerard Depardiu (bókin bíður uppí hillu hjá mér þangað til ég hef tíma til að lesa hana (Alexander Dumas var gríðargóður penni, svo maður festist í bókunum hans, og þessi er 600 síður)). Svo það er út frá sögunni sem ég ætla að dæma þessa mynd. Sem spennu- eða ævintýramynd á hún ef til vill allt öðruvísi rýni skilið. Sagan um Greifann af Monte Cristo fjallar um hefnd. Hún fjallar um mann sem situr áratugi í fangelsi fyrir ekki neitt, og þegar hann losnar þá eyðir hann gríðarlega miklum tíma, peningum, og hugviti til að hefna sín á þeim 4 mönnum sem losuðu sig við hann. Hefndin er mögnuð fyrir hvað hún er úthugsuð og snjöll. Það er nefnilega ekki nóg að drepa þá. Þeir verða að þjást eins og hann þjáðist, missa allt sem þeir eiga og elska. Það er þetta sem er svo mergjað við söguna, plottið hans er svo flott og sniðugt. en í þessari mynd vantar næstum allt kjöt í hefndina. Til að byrja með virðist Dantes (aðalsöguhetjan (og þeir gátu ekki einu sinni borið nafnið hans rétt fram)) ætla að fara hægt í sakirnar með klókindin að vopni, en svo eru 90 mínúturnar að verða búnar og hefndin verður bara svona venjulegu skylmingaatriði. Sumsé ekkert magnað plott. Annað sem er mjög óþolandi við þessa mynd er að Dantes er látinn vera algjör einfeldningur áður en honum er fleygt í fangelsi. Það verður því afskaplega erfitt að trúa því að hann geti allt í einu farið að nota heilann og planað klækjafulla hefnd. Ef þið viljið sjá söguna um Greifann af Monte Cristo þá mæli ég með þáttunum með Depardiu (fyrir utan síðustu 5 mínúturnar þar sem FRAKKAR leyfa sér að setja amerískan endi). Ég verð að láta aðra um að dæma þessa mynd út frá skylminga- og spennusjónarmiði. Þessi þynning á sögunni fór of mikið í taugarnar á mér. Einhver hélt að það þyrfti að matreiða hana ofaní ungt fólk í dag, en mér þykir sá hinn sami sína ungu fólki í dag ansi mikla vanvirðingu ef hann heldur að við séum svo þunn að við getum ekki melt góða sögu. Ein og hálf stjarna fyrir Guy Pierce og nokkrar flottar tökur og skylmingar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
All the Pretty Horses
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ojojoj. ekki sjá þessa mynd. ekki þó þið getið horft á hana ókeypis. hún er ekki tímans virði. þetta er ekki ástarsaga, ekki spennusaga, ekki þroskasaga, ekki gamanmynd, ekki mynd með boðskap, ekki neitt. bara eintóm leiðindi sem snerta mann ekkert. meira að segja Penelope Cruz tekst ekki að vera sjarmerandi lengur en í fyrsta rammanum sem hún birtist í. Matt Damon sem oft hefur unnið stór leiksigra, er bara ferlega pirrandi hérna með sínar stanslausu munnviprur og Henry Tomas leikur svo leiðinlegan karakter að hann getur ekkert fyrir hann gert. Ég leigði þessa mynd bara til að sjá hvað það var sem Ben Afflec var að stríða Matt Damon á í Jay and Silent Bob Strike Back, þar sem hann hló að honum fyrir að hafa leikið í henni. ég hefði mátt vita betur. þessi mynd fjallar um tvo kúrekastráka frá Texas sem ákveða að skreppa til Mexico. Af hverju er svosem ekki ljóst. Á leiðinni hitta þeir dreng sem er í vandræðum og dregur þá með sér í meiri vandræði og Mexicanarnir eru vondir við þá en Penelope elskar víst Matt af því að hann er ljóshærður og svo laginn við hesta. En það er enginn blossi á milli þeirra og maður finnur ekkert til með þeim né neinum í þessari mynd. ég held að þetta eigi að vera vegamynd, en hún er bara svo hrikalega leiðinleg, bæði sagan og persónurnar. helst að maður geti hrósað vandræðadrengnum sem er um það bil eina lífsmarkið í myndinni, auk nokkurra fallegra hesta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Walk to Remember
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mig langaði ferlega mikið að gefa þessari mynd þrjár stjörnur. Ástæðan er sú að hún er svo allt öðruvísi en flestar unglinga-ástarsögu-formúlu-myndir, að hún á margfalt hrós skilið fyrir. Þið vitið hvaða formúlu ég er að tala um: Halló stelpan og töff strákurinn, þessi týpíska öskubusku-saga, þar sem halló stelpan er sett í makeover og verður allt í einu svaka falleg og töff strákurinn missir andlitið og fellur fyrir henni og hún verður vinsæl og allir lifa hamingjusamir til skólaloka...

Nei hér er sko allt önnur saga á ferðinni, og miklu raunsærri og þannig séð fallegri. Hér er það töffarinn sem fær makeover, og þarf að takast á við sjálfan sig. Fyrst þarf hann að sætta sig við að hann laðast að halló stelpunni, og svo þarf hann að finna hugrekkið til að fara á móti vilja hópsins og hætta að vera aðaltöffarinn. Í rauninni er þetta þroskasaga hans og reyndar líka fleiri sögupersóna. En svo er ekki allt sem sýnist og endirinn ef til vill ekki það sem maður átti von á í upphafi. Mér finnst ýmislegt í seinni hlutanum draga myndina niður, en vil helst ekki skemma myndina fyrir ykkur með að segja hvað það er. Ég læt mér nægja að segja að sumt verði of fullkomið og annað full væmið. kannski myndin innihaldi bara aðeins of amerísk gildi fyrir Íslending eins og mig... en ég samt verð að hrósa henni fyrir að taka á þessu öskubusku efni á réttan hátt. því af hverju í ósköpunum má ekki bara öskubuska vera í sínum hallærislega an þægilega kjól? á ekki prinsinn bara að elska hana eins og hún er? í þessari mynd gerir hann það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Snow White and the Seven Dwarfs
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég vil byrja á að taka það fram að þessi umfjöllun er um hina glænýju íslensku talsetningu á þessari klassísku mynd, sem nýlega var gefin út á myndbandi og DVD.

Mamma mín keypti þessa um leið og hún kom út á íslensku, enda hefur Mjallhvít löngum verið uppáhald allra hennar barnabarna, og höfðum við fram að því þurft að lesa upp textann fyrir þau.

En það var með ákveðnum fyrirvara sem ég settist niður nokkrum dögum fyrir jól með 2ggja og hálfs árs gamalli bróðurdóttur minni til að horfa á perluna með íslensku tali. Íslenskar talsetningar á Disneymyndum hafa jú margar verið ágætar, en mér var samt ekki um sel. Ef satt skal segja hafði ég kviðið þessarar útgáfu allar götur síðan Disney fór að endurútgefa gömlu perlurnar sínar. Hver íslenskra söngkvenna gæti mögulega talað og SUNGIÐ fyrir Mjallhvíti? Þessi bjarta og tæra telpurödd var einfaldlega hvergi til í íslenskri leik- né söngkonuflóru. (ekki að íslenskar söng og leikkonur séu ekki margar frábærar - það var bara engin til sem passaði í þetta hlutverk).

En mér var heldur betur komið skemmtilega á óvart. Vigdís Hrefna Pálsdóttir minnir mig að hún heiti (- og ég held að hún sé á 4. ári í leiklistarskólanum), sem bæði talar og syngur FULLKOMLEGA fyrir Mjallhvíti. BRAVA Vigdís!!! Ég vil taka það fram að ég er sjálf söngnemi, og því einstaklega harður gagnrýnandi á þetta atriði. En Vigdís gerir þetta alveg alveg jafn vel og hin upprunalega Adriana Caselotti, og tekst þannig að færa hina yndislegu Mjallhvíti yfir á íslensku. Tenórinn sem syngur fyrir prinsinn er líka mjög góður (því miður man ég ekki hvað hann heitir - ég hef ekki myndina við höndina).

Mig langaði alveg ferlega mikið að gefa þessari talsetningu 4 stjörnur (eins og upprunalega myndin fær að sjálfsögðu), vegna þess hvað ég er ánægð með leikarana sem tala og syngja. En ég verð að taka hálfa stjörnu af vegna þýðingarinnar sem er oft ákaflega klaufaleg og varla íslensk! þýðandi hefur leyft sér að klippa út smáorð hér og þar, eða fornöfn, eða jafnvel litlar sagnir. Líklega er þetta gert til að textinn passi betur við munnhreyfingar persónanna, þ.e. verði ekki of langur, en oft er þetta algjör óþarfi. Dæmi: þegar Mjallhvít skipar dvergunum að fara út og þvo sér fyrir matinn segir Glámur: 'Til hvers? Við erum ekki að fara neitt. Og ekki nýár'. Hvernig væri 'Og ekki ER nýár!'? Fyrst reyndi ég að leiða þetta hjá mér, en því miður eru svona dæmi út um allt í myndinni. Og þessi mynd er fyrir aldurshóp sem er einmitt að læra að tala!

En fyrir utan þennan ágalla er myndin auðvitað alveg yndisleg - fyrir augu, eyru og sál bæði barna og fullorðinna. (og ég verð aftur að segja að Vigdís er frábær!!!)
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kate and Leopold
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sem leyndur (hmm ekki lengur) aðdándi rómantískra gamanmynda, verð ég að viðurkenna að hér varð ég fyrir frekar miklum vonbrigðum. Þetta er ágætishugmynd (myndarlegur enskur herramaður frá Viktoríutímanum sem kemur inn í nútímann og fellur fyrir nútímakonu), en hún verður að næstum því engu í þessari algjörlega ófyndnu mynd. Og maður hefði nú haldið að rómantískumyndagyðjan Meg Ryan og hinn fjallmyndarlegi Hugh Jackman ættu að geta bjargað einhverju, en því miður er Meg allan tíman pirruð og í fýlu, og er hundleiðinleg við aumingja Leopold. Maður botnar ekkert í því hvers vegna hann fellur fyrir henni. Og atriðin þar sem Leopold horfir opinmynntur á nútímann í menningarsjokki eru því miður ekkert fyndin.


Strákar: EKKI fara á þessa! (ég heyrði þjáningarstunur strákanna í salnum sem höfðu greinlega verið dregnir gegn vilja sínum...)

Stelpur: Jú, Hugh Jackman er MJÖG myndarlegur í herramannsklæðum með kurteisistilþrif og allt það, en ef það er ekki nægileg ástæða til að sjá hana, þá skuluð þið allavega bíða þar til hún kemur á vídeó. Og ekki gera kærastanum það að draga hann á hana.


plúsar: það er góður móralskur púnktur, þegar um hálftími er eftir af myndinni, um nútíma sölumennsku. og jú, ég hló í byrjunaratriðinu þegar verið var að halda ræðu um byggingu Brooklyn brúarinnar. Og svo auðvitað Jackman. namminamm.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vanilla Sky
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mat á þessari mynd fer algjörlega eftir því með hvaða viðhorfi farið er á hana. Ef þú ferð á hana til að sjá kúl mynd um kúl fólk með kúl tökum og kúl fléttu sem kemur þér á óvart, þá ættirðu svosem ekki að sjá eftir peningunum. En ef þú vilt sjá mynd um alvörufólk, og persónum sem þú getur fundið til með, þá skaltu ef til vill hugsa þig tvisvar um. Ég fór reyndar á hana með hinu fyrrnefnda hugarfari, en eftirá leyfði ég mér engu að síður að spá í hana út frá því síðara.

David Aames, persónan sem Tom Cruise leikur, er forríkur pabbastrákur sem hefur ekki gert neitt um ævina annað en að leika sér og vera 'kúl' og sænga með stórglæsilegu kvenfólki sem samt snertir hann aldrei - á meðan besti vinur hans, leikinn af Jason Lee, er svona líka miklu flottari (bæði karakter og útlitslega), en fær enga konu. Svo birtist Sophia, hin fullkomna, ferska, skemmtilega Sophia (mjög sjarmerandi leikin af Penelope Cruz), og núverandi bólfélaginn (Julia - leikin vel af Cameron Diaz) breytist úr honey í my stalker. Hún nefnilega er ekki alveg sátt greyið við að hann láti sig standa á sama um hana, og í ofurdramatísku stundarbrjálæði keyrir hún með þau bæði fram af brú. Hún deyr, hann verður ljótur. Þá er það spurningin: er David nógu mikill karakter til að vinna Sophiu þó hann sé afmyndaður í framan, eða var hann bara sætur?

Við höldum að við höfum fengið svarið, en þá fara afskaplega undarlegir hlutir að gerast, og á tímabili er maður alveg bit yfir hvað í ósköpunum sé í gangi, spennan og dramað magnast. Það er mjög vel gert, en því miður er endirinn ekki alveg nógu góður. ég veit satt að segja ekki alveg hvernig ég á að lýsa því, en það vantar eitthvað í hann. eitthvað ákaflega mikilvægt. líklega bragðið, bara.


Annað: karater Davids á kannski að vera kúl, en mér finnst hann bara megnasta karlremba, þið fyrirgefið. Ef maður ber saman Juliu og Sophiu, og framkomu Davids við þær, þá finnur maður töluverðan Svona konum sefur maður hjá og svona konum giftist maður keim þar af.

Sophia er líka einum of fullkomin - alltaf í góðu skapi, og sæt og sjarmerandi og orkumikil og æðisleg (ok það er reyndar réttlætt í lokin) - ég vona bara að engum detti í hug að halda að svona konur séu til. Oj, ég er farin að hljóma eins og bitur rauðsokka! OK - Sophia er yndisleg - ég hef bara áhyggjur af öllum fullkomnunaráráttu-anorexíu stelpunum sem halda að þær geti orðið eins og hún...


en útlitið á myndinni er glæsilegt, leikurinn þannig séð góður, og ráðgátan mögnuð, og upphafsatriðið er MJÖG kúl. sumsé, tvær og hálf.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Heist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

æj æj æj. enn ein misheppnaða myndin sem hefði getað verið miklu betri. í grundvallar atriðum fjallar hún um ræningjahóp, sem Gene Hackman leiðir. Einhverra hluta vegna er hann giftur konu sem er a. M. k. 30 árum yngri en hann, og lítur út eins og sporty-spice. Danny Devito er prangarinn þeirra (sá sem þeir ræna fyrir) sem neitar að borga þeim nema þeir fremji eitt lokarán. þá upphefjast svik, ofan á svik í kross við svik og meiri svik og blekkingar. eins og oft getur verið gaman að horfa á snjallar ránsferðir og fylgjast með sniðugum svikavefjum sem undið er ofanaf, þá var þessi mynd alveg ferlega slöpp. jú, vissulega eru hér einstaka sniðugar blekkingar og svik, og ein góð lína (its a good day for the race. what race? the human race), en í heildina kemur manni ósköp lítið á óvart, spennan er lítil sem engin, og það sem meira er, söguþráðurinn og sumar persónurnar (sérstaklega eiginkonan og vondi kallinn) eru ótrúverðug og á stundum klisjukennd. sumsé lélegt handrit með nokkrum góðum og nokkrum mjög slöppum leikurum. Ricky Jay í hlutverki aðstoðarmannsins Pinky er sá eini sem tekst að vekja með manni nokkrar tilfinningar. Fyrir utan stutta senu um hann og litla frænku hans finnur maður hvorki fyrir gleði, sorg, undrun, kæti, reiði, spennu né neinu öðru nema þá helst eftirsjá yfir hafa eytt tveimur tímum og tólf dollurum til einskis. sumsé, þessi má alveg bíða þar til hún er komin á myndband, og jafnvel þá er óþarfi að sjá hana, nema þú hafir ekkert betra að gera.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jay and Silent Bob Strike Back
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kevin Smith sagði sjálfur að það væri nákvæmlega enginn boðskapur í þessari mynd. Þannig að það er bara best að taka henni sem þeirri prumpu-brandara gamanmynd sem hún á að vera. Og sem slík er hún fín. Allavega var mikið hlegið í mínum hóp. Það var mjög fyndið að sjá hinar ýmsu stjörnur gera grín að sjáfum sér, og þá sérstaklega Matt Damon, Ben Affleck og Jason Biggs (sem átti líklega heiðurinn að stærstu hláturrokunni). Svo voru bara margir prumpubrandararnir góðir (þó maður hafi auðvitað einstaka sinnum hrist hausinn). Stærsti galli myndarinnar var sá að Silent Bob talaði 3svar sinnum, sem ætti að vera algjörlega bannað. Þá er það ekki lengur spes. 1 setning á mynd ætti að vera algjört hámark. Annars með betri aulahúmorsmyndum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Beauty and the Beast
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Af öllum spólunum sem ég á var það þessi sem ég valdi að horfa á fyrst þegar ég kom heim í heimsókn eftir meira en hálft ár í útlöndum. Og hún stóð alveg við sitt. Ég kann þessa mynd nokkurn veginn utanað, og hún er alltaf jafn góð. Ein allra besta Disney-mynd allra tíma, en ef til vill meira fyrir stelpur en stráka. :) Hún hefur allt sem góð gullaldar-Disneymynd á að hafa, undurfallega ramma, góðan söguþráð, flott og spennandi bardagaatriði (miklu betra en alltof stutta bardaga-atriðið í lokin á annars frábærri Lion King), góða tónlist (mig minnir að hún hafi verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlist, eða a. M. k. lagið Beauty and the Beast), og hreint út sagt frábærar aðal- og aukapersónur. Be Our Guest atriðið er hrein flugeldasýning, atriðið þar sem Fríða og Dýrið dansa í danssalnum kynnti glænýja tækni sem var nokkurs-konar undanfari Matrix hring-myndatökunnar, og ummyndunar-atriði dýrsins er svo ótrúlega flott að ég fæ ennþá hroll. Ég fæ líka alltaf hroll í blábyrjuninni þegar fíngerð tónlistin byrjar og svo aftur þegar þulurinn segir eftir stutta kynningu á forsögu ævintýrisis for who could ever learn to love a Beast!. Þetta var ein af fyrstu Disneymyndunum, ef ekki sú fyrsta, þar sem aðalkvenpersónan er eitthvað annað en bara sæt og góð. Fríða hefur karakter, er lestrarhestur, skrítin, dreymin, hugrökk og áræðin. Það eina hálf-kjánalega er Lafou og samband hans við Gaston, og það hvernig svona hávaxin og myndarleg stúlka getur verið dóttir svona pínulítils feits karls eins og pabbi Fríðu er. En engu að síður er þetta ein uppáhalds myndin mín. Ég held ég þurfi að horfa á hana aftur áður en ég fer aftur út...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Amelie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Yndisleg! Þetta er einhver sú besta mynd sem ég hef séð í langan tíma. Alveg einstaklega frönsk mynd en á sama tíma svo hlý og hrífandi. Þegar Amélíe Poulin var lítil stúlka þráði hún ekkert heitar en að finna hlýju frá föður sínum. En einu skiptin sem hann snerti hana var þegar hann skoðaði hana (hann er sumsé læknir). Þá varð litla stúlkan alltaf svo spennt að hún fékk ákafan hjartslátt, sem varð til þess að pabbi hennar komst að þeirri niðurstöðu að hún væri með alvarlegan hjartagalla. Þar af leiðandi fékk Amélíe aldrei að leika sér við önnur börn, henni var kennt heima, og var alin upp í einangrun... svona hefst myndin um Amélíe Poulin, sem allt í einu tekur upp á því að reyna að gera fólk í kringum sig hamingjusamt, en gætir þess vel að enginn viti að það sé henni að þakka. meira segi ég ekki af söguþræðinum, en þið getið alveg bókað það að það er ekki einn einasti amerískur rammi í þessari mynd. hún er frönsk út í gegn, og líklega besta franska mynd sem ég hef séð, og þá er nú mikið sagt því ekki rekur mikið af lélegum frönskum myndum á mínar fjörur. allt lífsviðhorfið í þessari mynd (undirstrikað með skemmtilegum litasamsetningum á filmunni) er svo hrífandi að allir koma skælbrosandi út. auk þess er hún að sjálfsögðu sprenghlægileg - ég verð að viðurkenna að ég hló svo mikið að fólk var farið að horfa á mig í bíó. sumsé ein af þremur bestu myndum ársins (með Crouching Tiger Hidden Dragon og Moulin Rouge). algjör perla. þessa ætla ég að eignast og horfa á aftur og aftur og aftur og aftur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Atlantis: The Lost Empire
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er alltaf mikil eftirvænting á mínum bæ eftir nýrri Disneymynd. Einhver hafði hins vegar sagt mér að það væri ekki svo mikið varið í þessa, svo ég bjóst ekki við of miklu. En ég kom út sátt. Þessi mynd hefur aðeins eldri markhóp en flestar Disneyteiknimyndir, húmorinn er kaldari og öllum söngatriðum er sleppt. já það er rétt, þetta er ekki söngvamynd, og það sem meira er, það er enginn funny sidekick! Hasarinn kemst fljótt í gang og það getur enginn kvartað yfir teikningunum, sem eru glæsilegar og á stundum töfrandi í anda Disney. Söguþráðurinn er svo sem ekkert flókinn, en alveg nógu góður og ekkert of mikið verið að troða í mann boðskap. Boðskapurinn er til staðar, en er ágætlega matreiddur til að börnin skilji og hinir eldri þoli. Reyndar fannst mér aðalpersónan ansi mikil stæling á Harry Potter (sérstaklega lúkkið), en hann virkaði nú samt ágætlega sem klaufski tungumála- og fornleifafræðingurinn sem er lagður vægðarlaust í einelti af um það bil öllum... já þetta er ekki alveg þessi mjúka sæta Disneymynd að öllu leyti. ég gæti vel trúað að strákar eigi eftir að fíla þessa betur, svo framarlega sem láta það ekki fara í taugarnar á sér hversu mörg Eðlisfræðilögmál eru brotin í myndinni... ekki með tærnar þar sem Shrek hefur hælana, en ágætis Disneymynd, og miklu betri en t. D. Pocahontas og Hunchback of Notre Dame.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shrek
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

YESSSSSSSSSSS!!! þetta er "teikni"-myndir fyrir ykkur öll sem nennið ekki að horfa á þessar stöðluðu og stundum geldu Disneymyndir (ég reyndar held upp á þær sjálf, en get skilið að það gera kannski ekki allir), og líka fyrir Disney-aðdáendur. Hér er sleppt öllum "hjartnæmum" söngatriðum, og Disney-klisjan tekin til bæna. vá. þessi mynd kom mér algjörlega á óvart, og ég held ég þurfi að sjá hana aftur og aftur og aftur. maður bókstaflega öskrar af hlátri (ekki bara ég heldur allur troðfulli salurinn). hún gerir ljótt sætt og sætt ljótt, en hefur samt í stórum dráttum svona góðan boðskap sem börn þurfa að sjá. auk þess að hafa fullt af húmor fyrir eldra fólk sem yngra. ég bara sá því miður endann fyrir og þess vegna tók ég hálfa stjörnu frá. sorrý. Þar sem Mulan er ein af mínum uppáhaldsmyndum var ég dauðhrædd um að Eddy Murphy yrði of líkur drekanum í þeirri mynd (Eddy Murphy talar sumsé fyrir asnann (the funny sidekick)), og mér fyndist Músjú vera mættur á svæðið. En Eddy er frábær, eins og aðrir leikarar sem tala í myndinni, og asninn er bara asninn. Svo er það tölvugrafíkin, því þetta er jú ekki teiknimynd, heldur tölvuteiknimynd. Vá. sumt af þessu var einfaldlega ekki hægt fyrir nokkrum árum. T.d. hárin á asnanum, sem bærast í vindi af ótrúlegri nákvæmni. Landslagið virkar mjög raunverulegt, og í einu atriðinu lá við að maður velti fyrir sér hvort það væri tekið á Íslandi. frábær mynd!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Knight's Tale
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

thíhí! æj, já, það er ósköp erfitt að vita hvað maður á að halda stundum yfir þessari mynd. hún má þó eiga það að hún gerir það sem hún á að gera, þ.e. skemmta manni. hún er skemmtileg, og maður kemur brosandi út úr bíó. mér finnst eiginlega bara nokkuð gaman að sjá nútímtónlist, dönsum, og klæðaburði blandað saman við settið. þetta er riddaramynd fyrir unglingaung fólk. Ég vil ekki endilega gera útaf við leikhæfileika Shannon Sossamon, eins og sá sem skifar að ofan - karakterinn hennar er bara svo ferlega óspennandi - en kannski leikkona með meiri útgeislun hefði getað gert þetta betur. ég er sammála að Heath Ledger er nákvæmlega Mel Gibson II, eða hinn nýji Mel Gibson (fyrir stelpur sem finnst gamli Mel vera orðinn soldið hrukkóttur). sumsé töff og sætur ástrali. endirinn var hræðilega fyrirsjáanlegur og íllmennið ótrúverðugt (allt í einu bara hatar hann William út af lífinu). en myndin var samt sem áður skemmtileg og það besta við hana voru skemmtilegar burtreiðasenur og frábærir aukakarakterar (Paul Bettany stelur senunni af mikilli snilld - og hinir eru líka stórskemmtilegir). þetta er ekki mynd til að taka alvarlega, en ef maður er tilbúinn til að taka henni sem það sem hún á að vera, þ.e. léttri skemmtun, þá getur alveg verið þess virði að sjá hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bridget Jones's Diary
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja, það urðu bara tvær og hálf. Ekki misskilja mig, ég skemmti mér konunglega á myndinni, en ég hef það samt á tilfinningunni að ég hefði skemmt mér betur ef ég hefði ekki verið búin að lesa bækurnar og búa mér til mína eigin ímynd af Bridget. Kannski hún eigi skilið 3... Rene Zellweger stóð sig vel, þó breskan hennar sé nokkuð hölt, en hún var bara allt önnur Bridget en í bókinni, að mínu mati. Svo var búið að klippa sumt úr bókinni út og bæta öðru inní - dæmi hver fyrir sig. Húmorinn í myndinni minnir stundum á Farelli bræður (Bridget getur verið álíka óheppinn og Ben Stiller í Something about Mary) þó hann gangi ekki alveg jafn langt. Ég allavega skellihló. Ég hef ekki séð Hugh Grant jafn flottan (eins og hann var orðinn þreyttur í sínum síðustu myndum) síðan hann lék síðast vonda karlinn (í sjónvarpsþáttum löngu löngu áður en hann varð frægur). Hann er hreint kostulegur sem "The Rake". Og hvað þá Colin Firth sem leikur aðeins nútímalegri (og grennri) útgáfu af sínum fræga Mr. Darcy. Það hefði enginn annar getað leikið þetta hlutverk - það er að hluta byggt á Colin Firth sjálfum. Og í bókunum er Bridget Jones hugfangin af hinum raunverulega Colin Firth (því var auðksiljanlega sleppt úr myndinni). Fyrir þá sem hafa ekki lesið bókina má sumsé líkja Dagbók Bridget Jones við nútímaútgáfu af Hroka og Hleypidómum (Pride and Prejudice) eftir Jane Austen, með nútíma breskum húmor. Var ég búin að minnast á að ég hló oft og mikið (fyrir utan nokkur "Ó NEI!")... Ég mæli með þessari fyrir: -alla sem hafa lesið bækurnar um Bridget Jones og haft gaman af -þá sem hafa lesiðséð Hroka og Hleypidóma -þá sem hafa gaman af góðum breskum hrakfallahúmor -þá sem halda uppá Colin Firth eða Hugh Grant eða Rene Zellweger -og allar stelpur sem stíga of oft á vigtina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hannibal
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég verð að segja að þegar ég kom heim af myndinni var ég á báðum áttum um hvort hún ætti að fá þrjár og hálfa eða bara þrjár stjörnur. Svo gekk mér alveg ótrúlega illa að sofa um nóttina, sem gerist svona um það bil aldrei eftir bíómynd, og fyrir það afrek fær hún að halda þessari hálfu. Ástæðan fyrir að ég var í svolítilli óvissu er sú að, eins og kemur fram í dómnum frá Philadelphiu, þá fer hún hræðilega hægt af stað. Lengi lengi framan af var ég bara að bíða eftir að eitthvað krassandi færi að gerast. Þónokkur tími fór í að rifja upp út á hvað samband Hannibals og Clarice gekk í fyrstu myndinni og á tímabili velti ég fyrir mér hvort þetta væri ein af þessum myndum þar sem maður bíður og bíður eftir einhverju sem svo aldrei kemur. En það kom, og það líka svo um munaði. Þegar myndin komst í gang breyttist hún í hið hreinasta listaverk. Já, ég segi listaverk, því ef morð, limlestingar og mannát geta verið listrænt sett fram, þá er það gert í þessari mynd. Og tónlistin, hún var fullkomið dæmi um hvað tónlist skiptir gífurlega miklu máli fyrir mynd. Skiptu um tónlist við þessa mynd og þú ert komin(n) með allt aðra bíómynd. Mér fannst meiriháttar flott að nota klassíska tónlist við brjálað krassandi og spennandi atriði. Hannibal Lecter er listunnandi og "smekkmaður" - þessi tónlist passar við hann. Hann drepur fólk sem honum finnst veröldin betur sett án en gerir það auðvitað nokkuð subbulega. Þó að það sé reyndar nóg að vera ókurteis til að Hannibal finnist þú ekki vera lífs þíns verður þykir mér samt sem áður oft töluvert um "poetic justice" í morðunum hans (sbr. fórnarlamb nr.4 sem tældi börn með vinalegu andlitinu og misnotaði þau svo. Og hvað gerði Hannibal? Hann skar af honum andlitið og gaf hundinum hans að borða - ahemm - þetta gerist fyrir mynd 1 svo ég ætti ekki að vera að skemma neitt (annars geta ritstjóranir klippt þetta innskot út ef þeir vilja)). En það er andlegur styrkur Hannibals sem gerir hann svo ógvekjandi, hvernig hann nær valdi yfir huga fórnarlamba sinna, og leikur sér að þeim, eins og köttur að mús. Ef það er eitthvað, einhvers staðar, innst í sálinni þinni eða sögu þinni sem þú átt erfitt með, þá veit hann það og notar það (sbr. lömbin hennar Clarice í fyrstu myndinni). Og þess vegna, og vegna þess hversu ótrúlega vel Anthony Hopkins leikur hann, sem manni finnst, þegar maður kemur úr bíó, eins og Hannibal Lecter sé raunveruleg lifandi persóna sem gæti þess vegna læðst inn á meðan maður liggur sofandi í sófanum og... þess vegna allar þessar stjörnur þrátt fyrir langa byrjun. Og svo auðvitað líka fyrir frábæra leikstjórn, meiriháttar tónlist, undurfagra kvikmyndatöku, Julianne Moore sem gefur Jodie Foster ekkert eftir, og: "Lokaatriðið" sem ég ræð mér varla af hrifningu yfir (og reyndar var líka allra síðasta atriðið alveg yndislegt). Nokkur orð að varnaði: ef þér var óglatt á "Interview with the Vampire" muntu líklega gubba í lokin á Hannibal! hmmm, soldið löng grein, en ég gæti talað endalaust um þessa mynd...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Moulin Rouge!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vá!!! Þetta er ein af þessum myndum sem fólk annað hvort elskar eða hatar, og ég gjörsamlega elska hana!!!! Hún er ólík öllu sem þú hefur áður séð. Ef ég get gefið fólki einhverja vísbendingu um hverju skuli búast við, þá er líklegt að þeir sem fíluðu romeo+juliet muni elska þessa. Leikstjórinn, sem er sumsé sá sami, gengur þó enn lengra hér í sínum sérstæða, skemmtilega og ýkta stíl. Þetta er dans og söngvamynd (án þess að eiga margt sameiginlegt með flestum slíkum) sem fær þig til að öskra af hlátri og sjúga uppí nefið af gráti. Lög sem allir þekkja eru notuð á hárréttum augnablikum til að undirstrika andrúmslofið á oft ótrúlega áhrifaríkan hátt - bæði í hádramatískum og sprenghlægilegum senum. Annað sem er sérstakt er hvernig margar ýktustu persónurnar hafa engu að síður dýpt og öðlast samkennd manns áður en yfir líkur. Og þessi klisjusaga sem hefur verið sögð svo oft áður, snertir mann á alveg nýjan hátt. Kidman og McGregor eru bæði alveg frábær. Þau syngja allt sjálf og gera það alveg ótrúlega vel (ég hélt fyrst að það syngi einhver fyrir þau - en svo er víst ekki). Misýktir aukaleikarar standa sig flestir mjög vel og Kylie Minogue er kostuleg sem the green fairy. Það eina sem ég er ekki sátt við er að John Leguizamo, sá skemmtilegi leikari, hafi verið látinn leika dverg!!! Það var bæði ótrúverðugt og ónauðsynlegt. Hann hefði vel getað leikið furðufugl (sem honum virðist þykja mjög skemmtilegt) í fullri mannshæð. Þess vegna fær myndin semsagt ekki fjórar stjörnur, en hún er samt svo frábær að það má alveg líta á þetta sem 3 og 3/4. Ekki láta sýnishornið úr henni blekkja ykkur. Mig langaði ekkert á þessa mynd eftir að ég sá það. Hélt hún hlyti að vera algjör tilgerð og bull. Svo dró vinkona mín mig á hana, og það sem eftir var kvöldsins gat ég ekki hætt að þakka henni fyrir það. VÁ!!!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei